Rektorar allra íslensku háskólanna skora á verðandi ríkisstjórn og nýkjörna þingmenn að hækka framlög til háskólanna að lágmarki um tvo milljarða króna árlega á næstu árum.
Rektorarnir segja í yfirlýsingu að ef háskólakerfið eigi ekki að verða fyrir frekari skaða þurfi þetta að koma til. Þeir benda á að úttektir Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) sýni að íslenskir háskólar séu verulega undirfjármagnaðir og fái helmingi lægra framlag á hvern nemenda en háskólar annars staðar á Norðurlöndum. Þessu verði að breyta og auka verulega fjárfestingu í háskólum á næstu árum. Tryggja verði að fjármögnun hvers nemenda á Íslandi sé sambærileg við önnur norræn ríki.
Yfirýsing rektoranna í heild:
Við undirrituð, rektorar allra háskóla á Íslandi, óskum verðandi ríkisstjórn heilla í þeim störfum sem bíða hennar á nýju kjörtímabili. Fjárfesting í innviðum íslensks samfélags er meðal mikilvægustu verkefna sem bíða. Málefni háskólanna, rannsóknir og nýsköpun eru þar á meðal.
Úttektir Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) sýna að íslenskir háskólar eru verulega undirfjármagnaðir og fá helmingi lægra framlag á hvern nemenda en háskólar annars staðar á Norðurlöndum. Þessu verður að breyta og auka verulega fjárfestingu í háskólum á næstu árum. Tryggja verður að fjármögnun hvers nemenda á Íslandi sé sambærileg við önnur norræn ríki. Ef háskólakerfið á Íslandi á ekki að verða fyrir frekari skaða þarf að ná þessu mikilvæga markmiði og hækka framlög til háskólanna að lágmarki um tvo milljarða króna árlega á næstu árum.
Í kjölfar ákalls okkar til stjórnmálamanna í byrjun október komust málefni háskólastigsins og fjármögnun háskólanna á dagskrá. Í aðdraganda kosninga tóku fulltrúar allra flokka sem nú eiga sæti á Alþingi undir ákallið og staðfestu mikilvægi fjárfestingar í háskólum til að efla framþróun samfélagsins og samkeppnishæfni Íslands.
Við skorum á verðandi ríkisstjórn og alla nýkjörna þingmenn að fylgja eftir orðum flokka sinna um aukna fjárfestingu í íslenskum háskólum. Mikilvægt er að ný ríkisstjórn geri sem fyrst áætlun um hækkun fjárframlaga til háskólastigsins sem er í takt við stefnu stjórnvalda í flestum nágrannaríkja okkar. Slíkt felur í sér fjárfestingu í velsæld, atvinnutækifærum og í framtíð landsins.
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands
Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík
Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri
Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor Listaháskóla Íslands
Vilhjálmur Egilsson, rektor Háskólans á Bifröst
Erla Björk Örnólfsdóttir, rektor Háskólans á Hólum
Björn Þorsteinsson, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands