Skipulag & Hönnun
Skipulagsfræði er sjálfstæð þverfagleg grein sem byggir á þekkingu úr náttúruvísindum, félagsvísindum og arkitektúr.

MS gráða – 120 ECTS einingar
Námið undirbýr nemendur til að starfa sem skipulagsfræðingar á Íslandi, en eftirspurn eftir skipulagsfræðingum er vaxandi um land allt, hjá sveitarfélögum og stofnunum ásamt einkageiranum.
Í náminu er fjallað um hönnun, skipulag og stjórnun þéttbýlisþróunar og svæða til að stuðla að sjálfbærri þróun. En skipulag samræmir þætti sem snúa að landnotkun, samgöngum, innviðum, húsnæði, umhverfislegri sjálfbærni og félagslegu réttlæti til að skapa virk, skilvirk og lífvænleg samfélög.
Unnið er með mismunandi stig og mælikvarða skipulags, allt frá mótun borgarrýma og skipulags þéttbýlis til svæðisskipulags. Í náminu er unnið bæði fræðilega og með raunhæf viðfangsefni skipulagsmála. Verkefnavinna og málstofur í virku samtali nemendahópsins, ásamt fyrirlestrum, eru miðpunktur námsins.
Um helmingur námsins byggir á skyldunámskeiðum, en um fjórðungur námsins eru valnámskeið. Lokaverkefni er 30 ECTS og skal verja opinberlega. Lokaverkefni skulu tengjast viðfangsefnum skipulags og/eða skipulagsfræða.
Námið fer fram í staðlotum á Keldnaholti í Reykjavík og í fjarnámi. Einnig eru valnámskeið við aðra háskóla.
Brautarstjóri er Harpa Stefánsdóttir
Námskynning 12. maí kl 16-17:30
Kynning á náminu fer fram á opnum degi á Keldnaholti í Reykjavík þar sem öllum fyrirspurnum um námið svarað. Áhugasömum er einnig bent á að fylgjast með Facebook síðu námsbrautarinnar meistaranám í skipulagsfræði, en þar eru ýmsir opnir viðburðir tilkynntir sem veita innsýn í málefni skipulagsfræða og námsbrautarinnar.

Skipulag náms
Gerð er krafa um að hafa lokið BS/ BA námi áður en nám í skipulagsfræði hefst. Sóst er eftir nemendum af fjölbreyttum fræðasviðum, en litið er á þverfaglegan nemendahóp sem kost, til þess að efla margþætta innsýn í málefni skipulags. Flestir nemendur eru með bakgrunn í arkitektúr, landslagsarkitektúr, landfræði eða verkfræði. En nám í upptöldum greinum veitir góðan grunn til að hefja nám í skipulagsfræði.
Lágmarkseinkunn fyrir inntöku er 7,25 en þau sem lokið hafa BS eða BA prófi, með meðaleinkunn 6,5 eða hærri, geta sótt um inngöngu í námið. Ef nemandi uppfyllir ekki ákveðnar forkröfur verður honum gert kleift að taka þau námskeið sem á vantar samhliða meistaranáminu.
Gerðar eru forkröfur um að nemendur hafi lokið grunnnámskeiðum í akademískum vinnuaðferðum, kortalæsi (GIS), tölvustuddri hönnun og grafískri framsetningu á háskólastigi. Hafi nemandi ekki undirbúning á þessu sviði er boðið upp á námskeið við LBHÍ sem hægt er að taka, en sem ekki eru metin til eininga í náminu nema í undantekningartilvikum.
Frekari upplýsingar um námsleiðina

Námsbraut í skipulagsfræði er 2 ára M.Sc. nám. Áhersla er lögð á að samtvinna faglega þætti skipulagsfræðinnar og íslenskar aðstæður með sjálfbæra þróun og sköpun lífvænlegs umhverfis að leiðarljósi. Námið veitir nemendum breiða, þverfaglega þekkingu á skipulagsfræði. Skipulagsfræði er sjálfstæð fræðigrein, en henni tengist fjöldi annarra greina. Hér má nefna lögfræði, félagsfræði, hagfræði, landfræði, náttúrufræði, sagnfræði, landslagsarkitektúr og arkitektúr. Námið er byggt upp af skipulögðum námskeiðum að þremur fjórðu og sjálfstæðu rannsóknarverkefni að einum fjórða. Leiðarstef í námskránni er gagnrýnin skipulagshugsun þar sem skipulagskenningum og fjölþættum aðferðafræðilegum nálgunum er beytt til að leita ákjósanlegra skipulagslausna sem mynda ramma um mannlíf og samfélag. Námið þjálfar nemendur í að beita megindlegum og eigindlegum rannsóknaraðferðum, rýmishönnun og skipulagsaðferðafræði til að koma á samstarfi hagsmunaaðila um skipulagsmál.
Aðstæður á Íslandi eru um margt sérstakar og því er mikilvægt að skipulagsfræðingar sem starfa á Íslandi hafi aflað sér þekkingar um snertifleti skipulags við ýmsar staðbundnar aðstæður okkar. Þær varða helst náttúru- og veðurfar, samfélag, hagkerfi, lagaumhverfi, tækni, menningu, fagurfræði, sögu byggðarþróunar og innri gerð byggðar. Að loknu námi eiga nemendur að hafa öðlast haldgóða þekkingu á skipulagsfræði sem atvinnugrein og geta unnið sjálfstætt að ráðgjöf, við lausn vandamála og að þróunarverkefnum á sviði skipulags. Í náminu er gert ráð fyrir að nemendur sæki námskeið við Landbúnaðarháskóla Íslands og aðra háskóla sem LbhÍ hefur samstarf við svo sem Háskóla Íslands. En valfrelsi í hluta námsins gefur tækifæri til að sækja námskeið við aðra háskóla, auk þess sem til boða stendur að sækja skiptinám við erlenda háskóla. Þannig gefst færi til nokkurrar sérhæfingar t.d. á sviði borgarskipulags og hönnunartengdra sérgreina, umhverfisskipulagstengdra sérgreina, eða stjórnsýslutengdra sérgreina. Lögð er áhersla á sjálfstæð vinnubrögð og verkefnavinnu sem miðar að lausn raunverulegra viðfangsefna og þjálfar hæfni nemenda til að vinna sjálfstætt að námi loknu.
Kennsla fer fram að mestu á Keldnaholti, Árleyni 22 Reykjavík og rafrænt. Einnig er um að ræða valnámskeið við Háskóla Íslands.
ATH. Skipulag námsleiðar er í endurskoðun og er birt með fyrirvara um breytingar!
Að loknu námi í skipulagsfræði

Vaxandi þörf er fyrir menntaða skipulagsfræðinga á Íslandi og er námið sniðið að íslenskum þörfum en fylgir engu að síður nýjustu stefnum í skipulagskenningum og fræðigreininni. Nemendur eru þjálfaðir í að beita meigindlegum og eigindlegum rannsóknaraðferðum, rýmishönnun og hagnýtri nálgun við lausn skipulagsverkefna með samvinnu við ýmsa hagsmunaaðila.
Að loknu námi eiga nemar að geta fengist við ýmisleg skipulagsverkefni t.d. unnið sjálfstætt að ráðgjöf og aðstoðað opinbera aðila við ákvarðanir í skipulagsmálum og metið líklegar afleiðingar þeirra.