Jafnlaunavottun
Landbúnaðarháskóli Íslands hlýtur jafnlaunavottun
Meginmarkmið jafnlaunavottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Samkvæmt lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna skal jafnlaunavottun byggjast á Jafnlaunastaðlinum ÍST 85:2012. Með innleiðingu staðalsins geta fyrirtæki og stofnanir komið sér upp stjórnunarkerfi sem tryggir að málsmeðferð og ákvörðun í launamálum byggist á málefnalegum sjónarmiðum og feli ekki í sér kynbundna mismunun.
Jafnlaunastaðallinn ÍST85:2012 er stjórnunarstaðall fyrir jafnlaunakerfi. Staðallinn nýtist öllum fyrirtækjum og stofnunum óháð stærð, starfsemi, hlutverki og kynjahlutfalli. Hann tryggir fagleg vinnubrögð sem fyrirbyggja beina og óbeina mismunun vegna kyns. Jafnlaunastaðallinn ÍST 85 er til sölu hjá Staðlaráði Íslands.
Vottunaraðili metur hvort öll skilyrði staðalsins hafi verið uppfyllt og þar með unnt að veita viðkomandi fyrirtæki eða stofnun jafnlaunavottun.
Nánari upplýsingar um hvað jafnlaunavottun felur í sér á vefsíðu Jafnréttisstofu.