Rektorar íslenskra háskóla hafa sent frá sér yfirlýsingu sem innlegg í umræðu um frumvarp til fjárlaga. Yfirlýsingin var send öllum alþingismönnuml. Tillögur um breytingar á fjárlagafrumvarpi ríkistjórnarinnar fyrir næsta ár kveða á um hækkun framlaga til allra háskóla landsins. Gert er ráð fyrir 17,9 milljóna aukaframlagi til Landbúnaðarháskóla Íslands.
Yfirlýsingin í heild sinni:
Yfirlýsing rektora íslenskra háskóla
31. október, 2014
Ísland stendur á krossgötum í dag. Þjóðin er verulega skuldsett og erfitt er fyrir stjórnvöld og heimili að ná endum saman án þess að ganga enn frekar á þau lífskjör sem við viljum hafa á Íslandi. Til að standa við okkar skuldbindingar og tryggja lífskjör til framtíðar, þá er nauðsynlegt að efla til muna sköpun nýrra verðmæta. Aukin nýting náttúruauðlinda mun ekki standa undir þessari verðmætaaukningu án þess að sjálfbærni sé fórnað. Nauðsynlegt er því að auka til muna verðmætasköpun sem byggir á hugviti og sköpun.
Í skýrslu frá McKinsey má finna sýnidæmi um hvað þurfi til að standa undir langtímahagvexti á Íslandi. Til að standa undir 4% árlegum hagvexti þarf að skapa ný verðmæti fyrir um 50 milljarða króna á hverju ári:
Mynd úr Charting a Growth Path for Iceland. McKinsey and company 2012 bls. 17
Það er vel þekkt um allan heim að háskólastarf er meginundirstaða sköpunar verðmæta á grunni hugvits. Á Íslandi er hins vegar ekki brugðist við þörf á hugviti og sköpun með fjárfestingu í undirstöðu, heldur er þvert á móti dregið verulega úr fjármögnun háskólanna, en fjármögnun á hvern háskólanema er árið 2011 aðeins 84% af því sem hún var árið 2005, samkvæmt skýrslu OECD, eins og sjá má á mynd hér að neðan.
Samantekt mennta- og menningarmálaráðuneytis úr skýrslunni Education at a Glance 2014 - OECD Indicators. (Tafla B1.5a bls. 219)
Það kemur ennfremur skýrt fram í skýrslu OECD að háskólar á Íslandi stóðu höllum fæti fyrir niðurskurð. Hér sést að Ísland er í sérflokki þegar kemur að fjármögnun háskólanáms og niðurskurði, en löndin í neðra horninu til vinsti eru þau sem eru með framlög undir meðaltali og hafa skorið niður framlög.
Education at a Glance 2014 - OECD Indicators. (Mynd B1.5, bls. 211)
Þetta misræmi milli þarfa íslensks samfélags og fjármögnunar háskóla verður að leiðrétta strax. Forgangsröðun fjármuna til háskólamenntunnar er því nauðsynleg. Það er eina leiðin til þess að skapa nægileg ný verðmæti til að standa undir skuldbindingum Íslendinga og þeim lífskjörum sem við eigum að venjast og viljum standa vörð um.
Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík
Björn Þorsteinsson, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands
Erla Björk Örnólfsdóttir, rektor Háskólans á Hólum
Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri
Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor Listaháskóla Íslands
Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands
Vilhjálmur Egilsson, rektor Háskólans á Bifröst