Skipulagsfræði er sjálfstæð fræðigrein sem kennd er í meistaranámi við Landbúnaðarháskóla Íslands. Vaxandi þörf er fyrir menntaða skipulagsfræðinga og námið sniðið að íslenskum þörfum sem og nýjustu stefnum í skipulagskenningum og fræðigreininni.
Endurmenntun LBHÍ býður upp á þrjú námskeið í samstarfi við háskólann sem henta öllum sem hafa áhuga á að kynnast hugmyndafræði skipulagsfræðinnar og/eða mennta sig á þessu sviði. Námskeiðin eru öll kennd í fjarnámi með tveimur staðlotum á 7 vikna tímabili, frá 19. október - 3. desember, og er skráningarfrestur til 15. október nk.
Námskeið í boði:
Borgarvistfræði: 6 ECTS eininga námskeið sem veitir innsýn í áhrif þéttbýlismyndunar og annarrar algengrar landnýtingar á vistkerfi og umhverfi og tengingu þeirra við umhverfismál samtímans. Kennari er Ása L. Aradóttir prófessor við LBHÍ ásamt fleirum.
Borgarskipulagssaga: Á námskeiðinu er fjallað um evrópska þéttbýlisþróun og athygli beint að byggðu umhverfi, hagfræði, stjórnmálafræði, félagsfræði og menningu sem tengist borgum og hvernig þessi svið tvinnast saman. Kennari er Dr. Astrid Lelarge lektor við LBHÍ og er námskeiðið kennt á ensku. Námið er metið til 4 ECTS eininga.
Völd og lýðræði í skipulagi: Nemendur læra að þróa með sér djúpstæðan skilning á því hvernig stefnumótun og skipulag eru samofin ýmsum þáttum, svo sem stofnunum, valdatengslum og orðræðu. Kennari er Sverrir Örvar Sverrisson skipulagsfræðingur og verkefnastjóri hjá Vegagerðinni.
Aðeins örfá pláss laus. Skráning og nánari upplýsingar á vef Endurmenntunar LBHÍ.