Viskukýrin 2015, spurningakeppni nemendafélags Landbúnaðarháskóla Íslands, fór fram í Ásgarði á Hvanneyri í fimmtudagskvöldið 12. febrúar. Þetta er í ellefta sinn sem keppnin er haldin og er hún alltaf jafn vel sótt af nemendum, starfsfólki og íbúum á svæðinu. Í ár skráðu 8 lið sig í keppnina, Búfræði 1 og 2, Búvísindi, Umhverfisskipulagsnemar, starfsfólk LbhÍ, starfsmenn í Hvannarhúsi, frjótækninemar og íbúar Hvanneyrar.
Spurningarnar eru fjölbreyttar og er mikið lagt upp úr því að keppnin sé hin skemmtilegasta fyrir alla aldurshópa. Fjölmiðlamaðurinn Logi Bergmann hefur verið spyrill frá upphafi keppninnar og stóð enn á ný í pontu og spurði keppendur spjörunum úr. Í hléi stigu Ásta Marý Ákadóttir, búfræðinemi og Jóhann Ingi Þorsteinsson, búfræðingur, á stokk og fluttu nokkur lög.
Ásta Marý og Jóhann Ingi
Í ár var það lið starfsfólks Landbúnaðarskólans sem bar sigur úr býtum. Liðið skipuðu Eyjólfur Kristinn Örnólfsson, sérfræðingur, Helena Guttormsdóttir, lektor við umhverfisskipulagsbraut og Bára Sif Sigurjónsdóttir, upplýsinga- og kynningarstjóri.
Viskukýr 2015 og Logi
Ýmsar hefði hafa skapast í gegnum árin, t.a.m. er kálfur úr Hvanneyrarfjósinu valin sem sérlegt lukkudýr keppninnar og í ár var það Viska 11 sem hlaut þann heiður. Hún er undan Visku 8. Jafnframt er forláta dráttarvél stillt upp í anddyri Ásgarðs sem fengin er að láni frá heimamönnum. Í ár varð Massey Ferguson 135 multi power fyrir valinu. Dráttarvélin er árgerð 1966 og er 47 hö. Vélar sem þessi var fyrst kynnt á Smithfield sýningunni árið 1964 og voru framleiddar allt til ársins 1979. Fyrstu vélarnar komu til Íslands vorið 1965 og seldust gríðarlega vel, talið er að allt að 3000 vélar hafi verið seldar ár árabilinu 1965-1979. Vél þessi kom ný í Melkot í Stafholtstunum. Starfsmenn Jörfa gerðu þessa vél upp og er hún í eigu Hauks Júlíussonar.
Massey Ferguson 136 multi power, árgerð 1966 og 47 hö