Vefnámskeið - Landgræðsla til sjálfbærrar þróunar með aðkomu viðskiptalífsins

Landgræðsluskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna hefur, ásamt samstarfsaðilum, þróað netnámskeið um þau tækifæri sem landgræðsla skapar til að stuðla að sjálfbærri þróun. Námskeiðið nefnist Landscape Restoration for Sustainable Development: a Business Approach.  Það gefur heildstæða þekkingu á landhnignun og landgræðslu bæði út frá sjónarhóli náttúruvísinda annars vegar og viðskipta- og atvinnulífs hins vegar. Í námskeiðinu er útskýrt hvernig landgræðsla bætir landgæði og frjósemi lands sem skilar  sér í fjárhagslegum og samfélagslegum ávinningi og styður þannig við afkomu og velferð einstaklinga og samfélaga. Námskeiðið er sérstaklega sniðið að nemendum og sérfræðingum í viðskiptum og stjórnun en er í boði fyrir alla sem hafa áhuga á að viðhalda og endurheimta landgæði.

Námskeiðið er svokallað MOOC-námskeið (Massive Open Online Course) sem fer alfarið fram á netinu og er opið öllum án endurgjalds. Það er því hægt að ná til mikils fjölda fólks í einu og gefa  breiðum hópi einstaklinga tækifæri til að mennta sig óháð staðsetningu og efnahag. Jafnframt skapar þessi gerð námskeiða sóknarfæri til að vekja athygli á aðkallandi málefnum samtímans.

MOOC-námskeiðið er þróað í samstarfi ENABLE verkefnisins sem styrkt er af Erasmus+ menntaáætlun Evrópusambandsins. Auk Landgræðsluskólans eru það Rotterdam School of Management, Commonland, Estoril Conferences og Spanish National Research Council sem standa að ENABLE verkefninu. Við þróun og gerð námskeiðsins átti Landgræðsluskólinn einnig mjög gott samstarf við sérfræðinga Landbúnaðarháskóla Íslands og Landgræðslu ríkisins, sem miðla í námskeiðinu af þekkingu sem þessar stofnanir búa yfir.

MOOC-námskeiðið er aðgengilegt á vef Coursera.org þar sem hægt er að skrá sig í námskeiðið.

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image