Sumjidmaa Sainnemekh varði doktorsritgerð sína

Varði doktorsritgerð um hnignun beitilanda í Mongólíu, mynstur og drifkrafta

Sumjidmaa Sainnemekh varði doktorsritgerð sína á sviði umhverfisfræða við deild Náttúru og skóga við Landbúnaðarháskóla Íslands nýverið. Ritgerðin ber heitið Hnignun beitilanda í Mongólíu — mynstur og drifkraftar e. Patterns and drivers of rangeland degradation in Mongolia. Leiðbeinendur Sumjidmaa voru Isabel C. Barrio, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands, Ása L. Aradóttir, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands, Dr. Brandon Bestelmeyer frá rannsóknastofnun Bandaríska landbúnaðarráðuneytisins e.United States Department of Agriculture-Agricultural Research Service, og Dr. Bulgamaa Densambuu frá landssamtökum notenda beitilanda í Mongólíu.

Andmælendur við vörnina voru Dr. Leslie Roche frá Davis Háskólanum í Kaliforníu, Bandaríkjunum og Próf. David Kemp frá Charles Sturt Háskólanum í Ástralíu.

Sumjidmaa Sainnemekh lauk BSc gráðu við School of Biology and Biotechnology við National University of Mongolia árið 2009 og MSc gráðu frá sama háskóla árið 2012. Þá vann Sumjidmaa við rannsóknir hjá Mongolian Society for Rangeland Management,  Information and Research Institute of Meteorology, Hydrology and Environment of Mongolia, fyrir Green Gold Project og fyrir National Federation of Pasture User Groups of Mongolia. Sumjidmaa hóf doktorsnám við Landbúnaðarháskóla Íslands í ágúst árið 2019 með styrk frá Landgræðsluskóla GRÓ.

Sumjidmaa í miðju ásamt f.v. Leslie Roche, Isabel Barrio, Ása Aradóttir og Hlynur Óskarsson, umsjónarmaður framhaldsnáms að lokinni athöfn. 

 

Um rannsóknina

Beitilöndum stafar vaxandi hætta frá loftlagsbreytingum og ofbeit. Breytt landnýting ásamt hnignun beitilanda er einnig í auknum mæli áhyggjuefni um heim allan. Hnignuð beitilönd hafa minni getu en óhnignuð til að veita þau náttúrulegu gæði sem þörf er á til að fullnægja þörfum samfélaga hirðingja og tryggja tilveru hefðbundins hirðingjabúskapar. Á undanförnum áratugum hafa komið fram alvarlegar áhyggjur af sívaxandi hnignun beitilanda í Mongólíu. Skilningur á hnignun beitilanda og mat á langtíma þróun gróðurfarsbreytinga er nauðsynleg undirstaða fyrir þróun leiða til sjálfbærrar nýtingar á þeim. Beitilönd í Mongólíu eru um 2,5% af heildarþekju graslendis í heiminum og eru talin vera á meðal síðustu beitilanda heimsins sem eru óröskuð. Þau ná yfir meginhluta Mongólíu og tengist beit búpenings á beitilöndum lífsviðurværi nærri helmings mongólsku þjóðarinnar.

Meginmarkmið þessa doktorsverkefnis voru (1) að taka saman fyrri rannsóknir á hnignun beitilanda í Mongólíu og meta og draga saman með kerfisbundnum hætti upplýsingar um hvernig mismunandi rannsóknir greindu hnignun, á hvaða fræðilega grunni þær byggðu og hverjir voru orsakavaldar hnignunar, ásamt landfræðilegri dreifing þessara rannsókna, (2) að greina leitni gróðurfarsbreytinga í mongólskum beitilöndum með því að nýta langtíma vöktunargögn sem ná yfir stór svæði og (3) að meta orsakir gróðurfarsbreytinga yfir ~10 ára tímabil á gresjum Mongólíu út frá nákvæmum mælingum á gróðurfari. 

Frá doktorsvörninni. David Kemp var í fjarfundi og Hlynur Óskarsson í pontu ásamt Sumjidmaa.

 

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image