Fjórtán nemar útskrifuðust frá Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna í síðustu viku eftir sex mánaða nám á Íslandi. Heildarfjöldi nemenda skólans frá upphafi er nú kominn yfir eitt hundrað en skólinn hóf starfsemi sína árið 2007. Að þessu sinni útskrifuðust nemendur frá átta löndum: Eþíópíu, Gana, Lesótó, Malaví, Mongólíu, Níger, Úganda og Úsbekistan, tíu karlar og fjórar konur.
Markmið Landgræðsluskólans er að byggja upp færni sérfræðinga sem starfa hjá samstarfsstofnunum skólans í Afríku og Mið-Asíu. Allir sérfræðingarnir sem hingað koma hafa a.m.k. eina háskólagráðu á því sviði sem Landgræðsluskólinn vinnur á og snúa aftur til sinna vinnustaða að loknu námi hér á landi.
Við útskriftina, sem fór fram á starfsstöð Landbúnaðarháskóla Íslands á Keldnaholti í Reykjavík, ávarpaði Sturla Sigurjónsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, gestina og minnti á Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og Parísarsamninginn um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum, sem hann sagði viðurkenningu alþjóðasamfélagsins á mikilvægi sjálfbærrar þróunar og baráttunnar gegn lofslagsbreytingum. Árni Bragason, Landgræðslustjóri og formaður stjórnar Landgræðsluskólans, flutti einnig ávarp sem og forstöðumaður Landgræðsluskólans, Hafdís Hanna Ægisdóttir. Tveir nemar, Badam Ariya frá Mongólíu og Emmanuel Lignule frá Gana, fluttu stutt ávarp fyrir hönd útskriftarhópsins og Beatrice Dossah frá Gana og Emmanuel Mwathunga frá Malaví fluttu frumsamið lag Beatrice Dossah. Það var Björn Þorsteinsson, rektor Landbúnaðarháskóla Ísland, sem sleit afhöfninni.
Landgræðsluskólinn er samstarfsverkefni utanríkisráðuneytisins, Landbúnaðarháskóla Íslands og Landgræðslu ríkisins. Skólinn er hluti af framlagi Íslands til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu og einn fjögurra háskóla Sameinuðu þjóðanna sem starfa hér á landi.
Til hamingju útskriftarnemar!