Út er komið Rit LbhÍ nr 104 á Áburðarsvörun grænfóðurs á framræstum mómýrum eftir Þórodd Sveinsson. Hægt er að nálgast ritið hér
Sumarið 2017 voru lagðar út tilraunir til að bera saman áburðarsvörun af áburðarkalki og tveimur þrígildum (N-P-K) áburðartegundum í vetrarrepju og vetrarrýgresi sem voru annars vegar ræktaðar á framræstri mómýri með langa ræktunarsögu (í sáðskiptum) og hins vegar í framræstri mómýri sem hefur ekki verið í ræktun (nýrækt). Þrígildi áburðurinn var annars vegar hefðbundinn grænfóðuráburður (dýr, kr/kg) og hins vegar hefðbundinn steinefnarríkur túnáburður (ódýr, kr/kg). Í ritinu er efni og aðferðum lýst sem og öllum niðurstöðum.
Helstu niðurstöður voru þessar:
- Á framræstum mómýrum er áburðarsvörun í vetrarrýgresi og vetrarrepju meiri með þrígildum grænfóðuráburði en með þrígildum túnáburði þegar kemir að uppskerumagni.
- Áburðarsvörun grænfóðurs er heilt yfir meiri á nýræktar mómýri en á ræktunar mómýri.
- Það er einungis áburðarsvörun af áburðarkalki í vetrarrepju en ekki í vetrarrýgresi á nýræktar mómýri.
- Það er engin áburðarsvörun af áburðarkalki í ræktunar mómýri.
- Enginn munur er á fóðurgildi (gæðum) uppskerunnar milli grænfóðuráburðar og túnáburðar.
- Heildaruppskera grænfóðurs af nýræktar mómýri er umtalsvert minni en af ræktunar mómýri.
- Hlutföll höfuðnæringarefnanna í þrígildum áburði (nitur, fosfór, kalí) hefur áhrif á áburðarsvörun grænfóðurs á mómýrum.
- Grænfóðuráburður kostar minna en túnáburður á hvert kg uppskeruauka í grænfóðri ámómýrum.
- Túnáburður kostar aðeins minna en grænfóðuráburður á hvert kg heildaruppskeru í grænfóðri á mómýrum.
- Það getur verið réttlætanlegt að bera lítið eða ekkert á grænfóður í ræktunar mómýri til að innleysa uppsöfnuð næringarefni úr fyrri ræktun (túnrækt). Það er ekki hægt í nýræktar mómýri.
- Ekki er mælt með túnáburði fyrir grænfóður á mómýrum.
Framleiðnisjóður landbúnaðarins styrkti þetta verkefni.