Út er komið Rit nr. 109 í ritröð LbhÍ og fjallar um meinafræðilega greiningu á lambleysi gemlinga eftir Charlottu Oddsdóttur. Hægt er að nálgast ritið hérna.
Rannsóknin fór fram á Hesti og tveimur öðrum búum á þriggja ára tímabili, haustið 2015 til vorið 2018. Snemmtæk fanggreining og fósturtalningar voru notaðar til þess að greina fanghlutfall meðal gemlinga og tímasetja mögulegt fósturtap. Þungabreytingar á Hesti voru greindar með tilliti til þess hvort gemlingar báru eða ekki auk þess sem krufningar voru gerðar á gemlingum með nýlega dauð fóstur.
Fanghlutfall gemlinga var yfir 90% þegar vel áraði, en í vandamálaárum fór strax að bera á fósturtapi á fyrsta mánuði meðgöngunnar, og hélt fanghlutfallið áfram að lækka, samkvæmt niðurstöðum fósturtalninga í febrúar og mars. Stærstur hluti fósturtaps varð á tveimur fyrstu þriðjungum meðgöngunnar. Þessir þrír árgangar gemlinga á Hesti þyngdust svipað á tímabilinu október-janúar, en þeir gripir sem misstu fóstur þyngdust hægar í janúar-mars, á því tímabili sem mest var um fósturtap.
Krufningar sýndu að fóstur höfðu liðið súrefnisskort, mögulega af völdum blóðrásartruflana, áður en þau drápust. Súrefnisskorturinn hafði valdið heiladrepi, kalkútfellingum í heilavef og fylgjuhnöppum auk breytinga á lifur í einu fóstri.
Hlutfall lamblausra gemlinga var áberandi hæst í tveimur hópum sem verið höfðu í samliggjandi króm á fengitíð og deilt fóðurgrind. Hrútar og gemlingar voru skoðuð á fengitíð árið eftir og sáust þá sár og blöðrur á æxlunarfærum sem bent gætu til æxlunarborins smits. Ekki var sýnt fram á tengsl þessara breytinga og lambleysis, en rannsóknir eru nú hafnar á þessum breytingum til þess að lýsa meinafræði þeirra.