Ragnheiður I. Þórarinsdóttir rektor og Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra handsala undirskrift samningsins

Undirritun samnings við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið

Ragnheiður I. Þórarinsdóttir rektor og Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra handsala undirskrift samningsins

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og Ragnheiður Inga Þórarinsdóttir, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands, undirrituðu á Hvanneyri í dag samning um þjónustu á sviði rannsókna, þróunarvinnu og sérhæfðar ráðgjafar fyrir árin 2020-2023.

Samkvæmt samningnum felur atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið skólanum að vinna að verkefnum er varða rannsóknir, þróun og nýsköpun á sviði landbúnaðar og matvælaframleiðslu. Þá verður skólinn ráðuneytinu til ráðgjafar og stundar rannsóknir, nýsköpunar- og þróunarstarfsemi í landbúnaði og umhverfisvísindum á þeim fræðasviðum sem samningurinn nær til og viðheldur þannig þekkingu sem hefur grundvallarþýðingu fyrir landbúnað og matvælaframleiðslu.

Ragnheiður Inga Þórarinsdóttir, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands:

„Samningurinn styður vel við nýja stefnu Landbúnaðarháskóla Íslands sem samþykkt var síðastliðið sumar til fimm ára. Þar er lögð áhersla á að stórauka rannsóknir, nýsköpun, samstarf við hagaðila og alþjóðlegt samstarf í því skyni að efla kennslu og innviði skólans. Landbúnaðarháskólinn starfar á þremur meginstarfsstöðvum; á Hvanneyri, í Reykjavík og á Reykjum í Ölfusi og býður upp á nám á þremur skólastigum; starfsmenntanám á framhaldsskólastigi, grunnnám (BS) og framhaldsnám (MS og PhD) Skólinn vinnur að því að fjölga vísindamönnum við skólann sem og nemendum á öllum námsstigum, enda gegnir Landbúnaðarháskólinn lykilhlutverki í þeim mikilvægu þáttum samfélagsins sem snúa að þróun landbúnaðar, nýtingu náttúruauðlinda, skipulagsmála, umhverfis- og loftslagsmála.“

Samningurinn felur það einnig í sér að háskólinn er stjórnvöldum innan handar með ráðgjöf og sinnir eftir atvikum stjórnsýsluverkefnum í umboði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, svo sem með setu í stjórn stofnana og þátttöku í vinnu starfshópa. Skólinn veitir einnig ráðgjöf við vinnslu einstakra verkefna sem tengjast stefnumótun og fleiri verkefna á sviði ráðuneytisins.

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:

„Öflugar rannsóknir og menntun eru mikilvægur hlekkur í framþróun og framtíð íslensks landbúnaðar. Því er í mínum huga eitt stærsta hagsmunamál íslensks landbúnaðar að efla Landbúnaðarháskóla Íslands og því er þessi samningur afskaplega þýðingarmikill fyrir landbúnað í heild sinni. Þá er ég þakklátur og ánægður skólanum að taka vel í það frumkvæði mitt að sinna skilgreindum verkefnum fyrir ráðuneytið, m.a. um að greina afkomu sauðfjárbænda og tillögur til að styrkja hana, tækifæri til að auka framleiðni í landbúnaði og virðisaukningu landbúnaðarafurða og tillögur þar að lútandi og þá áherslu að tryggja betur aðkomu bænda að kennslu og rannsóknum við skólann sem ég tel vera mjög mikilvægt verkefni.“

Sú nýbreytni er í samningnum sem undirritaður var í dag að Landbúnaðarháskólinn mun vinna skilgreind verkefni fyrir ráðuneytið. Þau eru eftirfarandi:

  • Greina afkomu sauðfjárbænda og tillögur til að styrkja hana.
  • Greina tækifæri til aukinnar ylræktar á Íslandi og tillögur til að styrkja þá starfsemi.
  • Leiðir til að styrkja sérstöðu íslenskra búvara á markaði.
  • Greina tækifæri til að auka framleiðni í landbúnaði og virðisaukningu landbúnaðarafurða og tillögur þar að lútandi.
  • Tryggja betur aðkomu bænda að kennslu og rannsóknum við skólann, m.a. í samstarfi við Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins, meðal annars með því að færa rannsóknir að hluta í sveitirnar.
  • Greina fæðuöryggi á Íslandi.
  • Skilgreina og undirbúa verkefni á sviði loftslagsmála um flokkun lands, mælingar á bindingu og losun gróðurhúsalofttegunda, m.a. um að bera saman losunartölur og losun frá framræstu landi á milli Íslands og annarra landa.

Samninginn í heild sinni má finna hér

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image