Framundan eru tvö fjárhundanámskeið í reiðhöllinni á Blönduósi sem haldin eru á vegum Endurmenntunar LBHÍ í samstarfi við Smalahundafélag Íslands og Bændasamtök Íslands. Hinn þaulreyndi fjárhundatemjari og sauðfjárbóndi, Paddy Fanning frá Churchmount Sheepdogs á Írlandi, mun kenna á námskeiðinu. Paddy hefur tvisvar keppt með írska landsliðinu og ferðast í dag um allan heim til að halda fjárhundanámskeið. Seinnipartinn í október mun hann svo mæta til Íslands til að kenna áhugasömum að nota fjárhunda í smalamennsku.
Um er að ræða tveggja daga námskeið þar sem vönduð vinnubrögð og fagmennska eru í hávegum höfð. Hægt er að taka þátt í námskeiðinu með hundi eða án hunds. Fyrra námskeiðið er haldið lau. 21. okt. og sun. 22. okt. og seinna námskeiðið er mán. 23. okt. og þri. 24. okt. kl. 9-17. Hámarksfjöldi á hverju námskeiði eru 8 nemendur með hundi og 5 nemendur án hunds.
Fjárhundanámskeið Endurmenntunar hafa notið mikilla vinsælda og færri komist að en vilja. Skráning er nú í fullum gangi og eru áhugasamir hvattir til að tryggja sér pláss hið fyrsta.