Landsvirkjun hyggst leggja um 12 milljarða króna til ýmissa nýframkvæmda, endurbóta og viðhalds á orkuvinnslusvæðum á næstu þremur árum, veita tímabundna afslætti af raforkuverði til viðskiptavina meðal stórnotenda sem nema um 1,5 milljörðum króna, undirbúa rannsóknar- og þróunarverkefni á Suðurlandi og Norðurlandi í samstarfi við hagaðila í nærsamfélaginu og flýta verkefnum á sviði stafrænnar þróunar. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Landsvirkjun.
Meðal tilgreindra verkefna er samstarfsverkefni með Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga og Landbúnaðarháskóla Íslands. Markmið verkefnisins verða að styðja við þróun og nýsköpun tengdri orkuháðri matvælaframleiðslu og líftækni á landsvísu. Í tengslum við verkefnið mun á næstu vikum vera auglýst eftir verkefnum í viðskiptahraðal á Suðurlandi.