Árlega kemur hingað til lands hópur fólks frá Mið-Asíu og Afríku sunnan Sahara sem stundar nám í sex mánuði við Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Skólinn er staðsettur á Keldnaholti og er samstarfsverkefni Landbúnaðarháskóla Íslands og Landgræðslu ríkisins ásamt utanríkisráðuneytinu, sem fjármagnar skólann. Landgræðsluskóli HSþ er hluti af þróunarsamvinnu Íslands auk þriggja annarra háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi: Jarðhitaskólans, Sjávarútvegsskólans og Jafnréttisskólans.
Nemarnir við Landgræðsluskóla HSþ eru í ár 13 talsins, sjö konur og sex karlar sem koma frá sjö löndum eða tveir nemar frá Kirgistan og þrír frá Mongólíu í Mið-Asíu og frá Afríku eru tveir frá Eþíópíu, einn frá Gana, tveir frá Malaví, einn frá Namibíu og tveir frá Úganda.
Framundan er nám um sjálfbæra landnýtingu, orsakir landhnignunar, samband landhnignunar og loftslagsbreytinga, landvernd, vistheimt, umhverfisstjórnun o.fl. ásamt því sem farið verður í styttri ferðir í næsta nágrenni Reykjavíkur þar sem lært er að lesa í landið og safna gögnum á vettvangi. Lengri ferðir verða farnar í sumar þar sem árangur og áskoranir Íslendinga í landgræðslu og landnýtingu verða skoðaðar og að lokum vinna nemarnir rannsóknaverkefni sem þau skila í september áður en að útskrift fer fram 17. september nk.
Allir nemarnir eru sérfræðingar á sínu sviði og eru starfsmenn samstarfsstofnana Landgræðsluskólans sem telja bæði háskóla og aðrar rannsóknastofnanir sem og sveitarfélög, ráðuneyti og aðrar stjórnsýslustofnanir.
Nemendur samankomnir fyrir utan kennsluhúsnæði að Keldnaholti