Innrauð loftmynd af Surtsey sem tekin var af Loftmyndum ehf. 4. ágúst 2018. Á myndinni sjást gígarnir tveir, móbergsbunkarnir norður af þeim (ljósgrá svæði) og hraunin niður af þeim vel, auk tangans sem skagar til NA. Rauður litur á myndinni sýnir gróðurmagn sem er mest í máfavarpi sem hófst á sunnanverðri eyjunni um 1985 og á tanganum.

Surtsey 55 ára

Guðrún Stefánsdóttir, þá meistaranemi við LbhÍ, við rannsóknir á melgresi í Surtsey í júlí 2010. Ljósm. BDS.
Surtsey séð úr lofti frá SA í júlí 2010. Ljósm. BDS.

Það var fyrir 55 árum, að morgni fjórtánda nóvember 1963, að fiskimenn á sjó, um 18 km suðvestur af Heimaey í Vestmannaeyjum, urðu þess varir að eldsumbrot voru hafin þar á sjávarbotni. Uppi varð fótur og fit. Á öðrum degi tók að grilla í litla eyju í gosmekkinum. Eyjan stækkaði hratt á næstu vikum og mánuðum var gefið nafnið Surtsey eftir eldjötninum Surti úr Norrænni goðafræði. Surtseyjargosið er með lengstu eldgosum sem þekkt eru á Íslandi, en það stóð fram í júní 1967 eða í rúmt þrjú og hálft ár.

Í goslok höfðu alls komið upp um 1,1 rúmkílómetri af gosefnum, þar af var um tveir þriðju hlutar gjóska og þriðjungur hraun. Eyjan rís eins og keila um 300 m upp frá sjávarbotni sem er á 130 m dýpi. Í Surtseyjareldum mynduðust einnig tvær smáeyjar , Jólnir og Syrtlingur, skammt undan Surtsey en þeim var ekki langra lífdaga auðið. Þær hurfu fljótt í hafróti.

Eins og við var að búast vakti Surtseyjargosið mikla athygli innanlands sem utan. Myndun slíkrar eldfjallaeyjar er mjög sjaldgæfur atburður. Surtsey skipaði því fljótt háan sess heimi vísinda og fræða. Jarðfræðingum gafst þar færi á að fylgjast með þróun gossins, uppbyggingu eyjarinnar, myndun móbergs, rofi og fleiri jarðfræðilegum fyrirbærum. Þannig opinberaðist mönnum hvernig Vestmannaeyjarnar höfðu myndast og mótast, en jafnframt sýndu úteyjarnar hver yrðu örlög Surtseyjar er tímar liðu. Í fyrsta sinn urðu menn vitni að og gafst færi á að rannsaka og staðfesta kenningar um myndun móbergs.

Í goslok var flatarmál Surtseyjar orðið um 2,7 ferkílómetrar, en í dag er hún hins vegar aðeins 1,2 ferkílómetrar. Á liðlega hálfri öld er helmingur hennar horfinn í hafið vegna stöðugs sjávarrofs. Hluti af því efni sem rofnar undan ríkjandi suðvestan vetrarstormunum myndar lágan tanga sem skagar hlémegin út frá eynni til norðurausturs (sjá mynd). Á seinni árum hefur hægst á rofinu og tanginn minnkað að sama skapi.

Líffræðingar fengu einnig í Surtsey einstakt tækifæri til að fylgjast með landnámi lífvera á nýju ósnortnu landi og myndun vistkerfis eftir því sem þráðum í hinum nýja lífvef fjölgaði. Þegar árið 1965, á meðan gosið stóð enn yfir, var eyjan friðuð vegna vísindarannsókna sem þar fóru fram og er svo enn í dag. Árið 2008 var Surtsey tekin inn á Heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna, sem var mikil viðkenning á stöðu hennar og þeim rannsóknum sem þar fara fram.

Rannsóknir í Surtsey voru mestar fyrstu árin, á meðan á gosinu stóð og í kjölfar þess. Hins vegar hefur þeim stöðugt verið haldið áfram og farnir hafa verið leiðangrar vísindamanna til eyjarinnar á hverju sumri, óslitið frá árinu 1964. Þannig hefur byggst upp eintök tímaröð athugana sem á sér fáar eða engar líkar þegar litið er til eldfjallaeyja um allan heim. Undanfarin ár hafa farið til eyjarinnar fjölmennir leiðangrar líffræðinga og jarðfræðinga og má segja að mjög blómlegar rannsóknir fari þar enn fram. Skemmst er að minnast borunar á nýjum, djúpum rannsóknaholum niður í kjarna eyjarinnar haustið 2017 til jarðfræði- og örverurannsókna. Eyjan heldur einnig áfram að vekja áhuga vísindamanna um allan heim en fjöldi tilvitnana í alþjóðlegar vísindagreinar sem fjalla um Surtsey rúmlega fjórfaldaðist á síðasta áratug, svo dæmi sé tekið.

Í gegnum tíðina hafa vísindamenn frá mörgum innlendum stofnunum og háskólum komið að rannsóknum í Surtsey ásamt erlendum samstarfsmönnum. Surtseyjarfélagið, sem stofnað var árið 1964, hefur haft umsjón með skipulagi rannsókna í Surtsey. Félagið hefur látið reisa þar skála, þyrlupall og sjálfvirka veðurstöð sem það annast viðhald á. Einnig hefur það staðið að útgáfu vísindaritsins „Surtsey Research“ sem birtir skýrslur og greinar með rannsóknaniðurstöðum frá Surtsey og öðrum eldfjöllum. Skýrslurnar eru aðgengilegar á heimasíðu félagins,www.surtsey.is, en sú fyrsta kom út 1965 og sú síðasta og þrettánda í röðinni árið 2015. Hafinn er undirbúningar að útgáfu þeirrar fjórtándu. 

Hin seinni ár eru það einkum vísindamenn frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Landbúnaðarháskóla Íslands, Hafrannsóknastofnun, Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, Veðurstofu Íslands og Matís sem standa að reglubundinni vöktun og rannsóknum í Surtsey. Loftmyndir ehf. hafa annast loftmyndatöku af eynni á tveggja ára fresti fyrir Surtseyjarfélagið og rannsóknaaðila. Friðlandið í Surtsey er í umsjón Umhverfistofnunar sem annast þar eftirlit og veitir leyfi fyrir leiðöngrum þangað.

Surtseyjargosið og síðan gosið í Heimaey áratug seinna sýnir að Vestmannaeyjar eru langt frá því að vera útdauð eldfjöll. Það mun ekki koma mönnum á óvart ef gos verður þar á næstu áratugum.

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image