Ellert Arnar Marísson og Jón Auðunn Bogason stunda báðir nám í skógfræði við Landbúnaðarháskóla Íslands. Þeir hafa báðir brennandi áhuga á skógrækt og skógfræðum en hvorugur stefndi sérstaklega á þetta nám að loknu stúdentsprófi. Námið kom þeim skemmtilega á óvart og er mjög fjölbreytt og skemmtilegt.
“Ég fór fyrst í verkfræði í HÍ og svo prófaði ég líka tölvunarfræði en fann mig í hvorugu. Ég fór í áhugasviðskönnun og þá kom skógfræðin þar upp efst á blaði. Ég var ekkert inn í skógræktarmálum þegar ég ákvað að sækja um hér við LbhÍ, en ég sé alls ekki eftir því, áhugasviðskönnunin beindi mér á rétta braut. Námið er þverfaglegt og kemur inn á svo margt, við lærum m.a. um rekstur fyrirtækja og bókhald, svo er námið bæði verklegt og bóklegt.“ segir Jón Auðunn.
Ellert, sem kemur frá Sauðárkróki, hafði unnið fyrir sveitarfélagið í umhirðu opinna svæða. „ Ég vissi bara að ég vildi vinna utan dyra og ákvað að sækja um skógfræðina eftir að hafa unnið við umhirðu grænna svæða fyrir bæinn. Ég fann strax að þetta nám var fyrir mig og mér finnst allt áhugavert sem ég er að læra, gott háskólanám vekur upp fleiri spurningar en maður gerir ráð fyrir og þannig var það í mínu tilviki. Skógargeirinn er fjölbreyttur og það hefur verið gaman að fá að kynnast fólkinu sem starfar innan hans í gegnum vettvangsferðir í náminu. LbhÍ er persónulegur skóli með góðum kennurum og svo koma til okkar gestakennarar sem eru sérfræðingar á sínu sviði, fólk sem er að vinna í geiranum. Við fáum að heyra af því sem er að gerast núna en erum ekki að læra um gamlar rannsóknir."
Þeir félagar við vinnu, Ellert Arnar og Jón Auðunn
Nám í landgræðslu og skógfræði er kennt saman á fyrstu tveimur árunum en á þriðja ári sérhæfir nemandi sig meira og tekur sér kúrsa sem að aðgreina brautirnar. Ellert og Jón eru sammála að í náminu eru góðir áfangar sem nýtast í starfi. Þeir stefna á að útskrifast á komandi hausti og vonast þeir eftir að það takist hjá þeim, þar sem næstu mánuðir verða fullbókaðir. Þeir hafa nýlega stofnað fyrirtæki sem býður upp á gróðursetningu, grisjun og almenna umhirðu skóglendis, fyrirtækið ber nafnið Skógarumhirðan sf. Stofnendur eru fjórir, Ellert, Jón Auðunn, Svanhvít Jóhanna Jóhannsdóttir kærasta Ellerts og Auður Gunnarsdóttir kærasta Jóns Auðuns, þeir félagar í grisjun og makar þeirra í gróðursetningu. Svanhvít er nemi í náttúru- og umhverfisfræði við LbhÍ og Auður stefnir á nám í búfræði við LbhÍ
„Okkur langaði að starfa við það sem við höfum lært og líka langaði okkur að starfa sjálfstætt, prófa það á meðan maður er ungur. Ég heyrði frá félaga mínum sem hefur verið að gróðursetja á Suðurlandi að það vantaði verktaka á Vesturlandi. Við sáum þarna tækifæri og stefnum á að þjónusta bæði fólk á Vestur- og Suðurlandi. Við viljum þjónusta skógarbændur, bændur eða aðra landeigendur með gróðursetningu, grisjun á veturna og almenna skógarumhirðu, með áburðargjöf og framtíðargrisjun.“ segir Ellert.
Þeir vonast eftir að geta unnið við þetta allt árið um kring, þá með gróðursetningu á sumrin og grisjun á veturna. „Við byrjum að gróðursetja á suðurlandi fyrir landeigendur. Þetta virkar þannig að samningur er gerður á milli landeiganda og landshlutaverkefnanna og svo komum við inn í verkefnið sem verktakar og sjáum um verkið og umhirðu. Fjárhagsbókhaldið er að nýtast okkur núna. Við eru með rúmlega 100.000 plöntur sem við munum gróðursetja í sumar.
Þeir segja að skógurinn sé auðlind, ein tegund af landnýtingu. Það er því að mörgu að hyggja þegar kemur að skógrækt. „ Að öllu jöfnu er verið að vinna eftir 60-120 ára áætlunum í skógrækt, við höfum tiltölulega litla reynslu af skógrækt á Íslandi miðað við þau lönd sem við berum okkur gjarnan saman við. Það er enn verið að byggja upp þessa reynslu, þekkingu og hefð; hvenær á að grisja, hvernig eigi að nota áburð og fleira. Nú styðjumst við við norrænar áætlanir af landsvæði sem er á sömu breiddargráðu og Ísland.“
Nytjaskógur er á frumstigi hér á landi. Nytjaskógur er notað yfir það þegar tré eru gróðursett í þeim tilgangi að fá úr framtíðarskóginum viðarafurðir eins og timbur, kurl, við til að brenna, smíðavið og timbur til bygginga. Það eru til þrjár tegundir af íslenskum trjám: birki, reyniviður og blæösp. Við sjáum mest af birkinu, það er t.a.m. mikið notað í steinofna þar sem pizzur eru eldaðar.
Birki í Munaðarnesi, en það gefur sérstakt bragð sé það notað í pizzusteinofna
Ellert og Jón segja að skógarþekjan sé að aukast og að skógrækt sé á uppleið. Með tilkomu landshlutaverkefnanna, Skjólskógar á Vestfjörðum, Norður- Vestur-, Suður- og Héraðs- og Austurlandsskógar, hafi gróðursetning aukist gríðarlega mikið. „Þéttari skóglendi eru góðar fréttir fyrir okkur mannfólkið, trén kolefnisbinda, bæta jarðveg auk þess að tré geta myndað falleg útivistarsvæði.“ Landshlutaverkefnin hafa staðið sig vel í uppbyggingu á íslenskum skógum. „Dæmi um vel heppnað skógræktarverkefni er Hekluverkefnið svokallaða, kallað Hamfaraskógur af gárungum. Það gengur út á endurheimta birkiskóg við rætur Heklu í þeim tilgangi að hindra sandfok, auka jarðvegsvernd og vernda nærliggjandi umhverfi fyrir öskufalli úr framtíðar Heklugosi. Askan leggst í skógarbotninn því þar festist hún betur en á berangri. Annað dæmi er Eyjafjallagosið en þá tók skógurinn í Þórsmörk vel við allri ösku sem fauk og það betur en önnur vistkerfi eins og mólendi og graslendi. Trén lifa öskufallið og askan fýkur ekki mikið frá skógarbotninum. Gróðurinn var því fljótur að taka aftur við sér. Það er svo margt sem býr í skóginum auk trjánna.“ segja þeir að lokum.