Nýlega var styrkjum úthlutað úr Rannsóknasjóði Rannís fyrir árið 2016. Gaman er að segja frá því að starfsmenn LbhÍ hlutu þar tvo styrki af átta í flokknum Náttúru- og umhverfisvísindi.
Bjarni D. Sigurðsson, brautarstjóri Skógfræði og landgræðslubrautar LbhÍ, hlaut styrk vegna verkefnisins ForHot skógur: Áhrif jarðvegshlýnunar á kolefnishringrás íslensks skógarvistkerfis. Verkefnið fer fram á Reykjum í Ölfusi þar sem Suðurlandsskjálftinn 2008 olli því að jarðvegur undir 50 ára gömlum greniskógi og fleiri svæðum tók að hitna og þar með sköpuðust einstakar aðstæður til að rannsaka áhrif hlýnunar á vistkerfi. Þegar eru tveir erlendir doktorsnemar sem eru skráðir við Antwerpenháskóla í Belgíu og LbhÍ við rannsóknir á þeim breytingum sem hafa orðið á graslendum á svæðinu, en með styrknum frá Rannís verður þriðja (íslenska) doktorsnemanum bætt við, en sú staða verður auglýst fljótlega. Frekari upplýsingar um verkefnið er að finna á www.forhot.is
Þá hlaut Jón Hallsteinn Hallsson, deildarforseti auðlindadeildar LbhÍ, styrk vegna verkefnisins Hestar og sauðfé víkinganna: Fornerfðafræði húsdýra í Norður-Atlantshafi. Í verkefninu verður uppruni íslensku hrossa- og sauðfjárstofna skoðaður með nýjustu aðferðum til erfðafræðirannsókna á forn DNA og þeim einstæðu dýrabeinasöfnum sem grafin hafa verið upp í löndunum í og við Norður-Atlantshaf. Verkefnið tekst á við stórar spurningar um aðlögunarhæfni búfjárstofna gangvart loftslagsbreytingum og breyttum búskaparháttum, málefni sem eru ekki síður mikilvæg í dag en þau voru þegar víkingar settust að við Norður-Atlantshaf.
Albína Hulda Pálsdóttir, dýrabeinafornleifafræðingur, verður doktorsnemi í verkefninu sem er unnið í samstarfi við Dr Sanne Boessenkool fornerfðafræðing við Háskólann í Osló og Dr Juha Kantanen stofnerfðafræðing við Natural Resources Institute Finland.