Mennta- og menningarmálaráðherra skipaði starfshóp í nóvember 2019 til að fara yfir stöðu og framtíðarskipulag starfsmenntanáms við Landbúnaðarháskóla Íslands sem fram fer á Hvanneyri og að Reykjum í Ölfusi. Tilefnið var áhyggjur hagaðila í garðyrkjugreinum sem töldu að verið væri að breyta inntaki og sýnileika námsins.
Niðurstöður sem fram koma í séráliti LbhÍ eru eftirfarandi:
- Tækifæri innan garðyrkjunnar á Íslandi eru gríðarleg og brýnt að aðilar taki höndum saman ásamt stjórnvöldum um að koma innviðum á Reykjum í það horf að þeir séu fremstir í flokki á alþjóðlegan mælikvarða. Þannig mun námið verða sýnilegra og draga að unga fólkið sem þarf til nýliðunar.
- Samstarf verði um að efla rannsóknir og nýsköpunarstarf enn frekar sem skili sér í bættum innviðum og til starfsmenntanámsins og atvinnulífsins með skilvirkum hætti.
Á undanförnum misserum hefur verið gert stórátak í átt að því að bæta innviði á Reykjum. Garðskálinn hefur verið endurbyggður og ýmsu öðru viðhaldi verið sinnt. Kynningarstarf hefur verið öflugt og nemendur skólans aldrei verið fleiri. Aðsókn í námið sló öll met sl. haust.
Í séráliti LbhÍ er lögð áhersla á styrkleika og samlegðaráhrif á milli skólastiga sem er ein af sérstöðum skólans. Í desember sl. ákvað mennta- og menningarmálaráðherra að starfsmenntanám í garðyrkju yrði fært til FSu. Undirbúningur að því hefur verið í gangi á undanförnum mánuðum og hefur Landbúnaðarháskóli Íslands sent frá sér þarfagreiningu um rannsóknir sem fram fara á Reykjum. Fjölbrautaskóli Suðurlands vinnur enn að þarfagreiningu sem snýr að starfsmenntanáminu í samvinnu við starfsfólk á Reykjum.
LbhÍ hefur lagt áherslu á að samlegðaráhrif sem eru á milli starfsmenntanámsins annars vegar og rannsóknastarfseminnar hins vegar verði áfram tryggð við breytinguna.