Skipulag í norrænu samhengi – tækifæri og áskoranir

Pallborðsumræður í lok ráðstefnunnar. Dr. Harpa Stefánsdóttir stýrði umræðum.

Skipulag í norrænu samhengi – tækifæri og áskoranir

Norræna skipulagsrannsóknarráðstefnan PLANNORD fór fram dagana 21. - 23. ágúst síðast liðinn og var yfirskrift hennar Skipulag í norrænu samhengi – tækifæri og áskoranir.

Þetta er stærsti viðburðurinn á norðurlöndum sem einblýnir á skipulagsmál í norrænu samhengi og miðlun rannsóknaafurða því tengdu.

Landbúnaðarháskóli Íslands, deild skipulags- og hönnunar hafði umsjón með ráðstefnunni í ár og var Dr. Harpa Stefánsdóttir prófessor í skipulagsfræði við LBHÍ ábyrgðaraðili og stjórnandi hennar. Áður en sjálf ráðstefnan hófst var haldið námskeið fyrir doktorsnema í skipulagsfræði sem jafnframt héldu erindi og fluttu hraðkynningar fyrir ráðstefnugesti.

Sjálf ráðstefnan fór fram á hótel Hilton 22. - 23. ágúst. Ráðstefnan tókst afar vel til og almenn ánægja meðal þátttakenda sem voru yfir 100 talsins.

Frá námskeiði doktorsnema sem haldið var á Keldnaholti, starfsstöð LBHÍ í Reykjavík.

 

Sjálfbær og lífvænleg framtíð

Yfirskrift ráðstefnunnar, „Skipulag í norrænu samhengi“ vísar til umhverfisaðstæðna og þeirra forsendna sem skipulag ætti að taka mið af til að styðja við lífvænlega og sjálfbæra framtíð. Tilgangur ráðstefnunnar var að fjalla um á hvaða hátt skipulag á Norðurlöndum stendur frammi fyrir sérstökum áskorunum tengdum staðbundnum aðstæðum eða hvort þær bjóði upp á tækifæri sem skoða ætti í auknum mæli til að mæta markmiðum um sjálfbæra og lífvænlega framtíð. Þessar staðbundnu aðstæður gætu varðað samfélag, menningu, réttarkerfi, skipulagsaðferðir, hnattræna stöðu, náttúrufar sem og byggt umhverfi.

Lykilfyrirlesarar á ráðstefnunni voru Dr. Torill Nyseth, prófessor í samfélagsskipulagi við háskólann í Tromsø og Dr. Simin Davoudi, prófessor í borgarskipulagi við háskólann í Newcastle. Á ráðstefnunni voru flutt um 90 erindi auk lykilfyrirlestra sem skiptust í átta megin þemu (panela).

  • Þétting byggðar í norrænum borgum – staðbundnar áskoranir. Harpa Stefánsdóttir, LBHÍ og Gertrud Jørgensen, UCPH leiddu.
  • Endurnýting sögulegra svæða í norrænum bæjum Astrid Lelarge, LBHÍ og Even Smith Wergeland, AHO leiddu.
  • Ný rými fyrir byggðaþróun og staðbundna uppbyggingu Knut Bjørn Stokke, NMBU og Carsten Jahn Hansen, AAU leiddu.
  • Skipulagskenningar og framkvæmd skipulags í Norrænu samhengi Raine Mäntysalo, AU og Martin Westin, SLU leiddu.
  • Stafræn þróun í skipulagsgerð – ferlar, verkfæri og gögn. Christian Fertner, UCPH, Lars Bodum AAU og Emmanuel Pagneux, LBHÍ leiddu.
  • Skipulag á Norðurslóðum Sigriður Kristjánsdóttir, LBHÍ og Kristina L. Nilsson, LTU leiddu.
  • Frístundahús, skipulag og umhverfisleg sjálfbærni Jin Xue, NMBU stýrði.
  • Vandamál tengd sjálfbærni í landnotkunarskipulagi Hanna Mattila, AU.
Erindi í panelnum um þéttingu byggðar.

 

Að loknum fyrirlestri Dr. Torill Nyseth fóru fram pallborðsumræður undir yfirskriftinni „Eins en öðruvísi – Hvað getum við lært af nágrönnum okkar á Norðuröndunum“ og að loknu erindi Dr. Simin Davoudi í lok ráðstefnunnar komu saman hópstjórar hvers þema og stýrði Dr. Harpa Stefánsdóttir umræðum þar sem ræddar voru helstu niðurstöður umræðna.

Sérstök tækifæri og áskoranir í norrænu skipulagi

Fjallað var um þau sérstöku tækifæri og áskoranir sem geta skapast vegna margvíslegra norrænna aðstæðna og stefnt að því að fá fjölbreytta innsýn þátttakenda. Með því að nýta verk og þekkingu hvers annars, var leitað að lærdómi sem draga má af til þess að nálgast staðbundnar aðstæður á þverfaglegan hátt. Jafnframt hvernig meta megi þær forsendur sem skipulag ætti að taka mið af til að styðja við lífvænlega og sjálfbæra framtíð.

Vettvangur fyrir tengslanet og miðlun þekkingar um skipulag

PLANNORD er óformlegur vettvangur sem starfar fyrst og fremst í norrænu samhengi og er stjórnað af fræðafólki við háskóladeildir í skipulagsfræðum á norðurlöndunum. Þar kemur saman fræðafólk frá umræddum háskólum ásamt starfandi skipulagsfræðingum til að ræða um breytingar á sviði skipulagsmála og miðla af reynslu sinni.

Dr. Harpa Stefánsdóttir t.v. afhendir „mælistikuna“ til Mariu f.h. Svíðþjóðar sem mun halda utan um skipulag næsta PLANNORD 2027.

Stjórn PLANNORD. F.v Raine Mäntysalo, AU; Harpa Stefánsdóttir, LBHÍ;  Knut Bjørn Stokke, NMBU;  Kristina L. Nilsson, LTU;  Sigríður Kristjánsdóttir, Carsten Jahn Hansen, AAU og  Maria Håkansson, KTH.

 

Ráðstefnur PLANNORD eru haldnar annað hvert ár og færast á milli norðurlandanna. Í stjórn PLANNORD sitja 1-2 fulltrúar frá hverju norðurlandanna. Svíþjóð tók við keflinu og mun hýsa næsta PLANNORD sem haldið verður árið 2027. Ástæða tilfærslu um eitt ár er vegna heimsviðburðar 2026, en þá verður heimsþing skóla um skipulagsfræðimenntun haldið í Helsinki í fyrsta skipti í Evrópu (World Planning Schools Congress ( 6th WPSC 2026 – World Planning Schools Congress ) Stjórn PLANNORD vill ekki berjast um athygli síns fólks og ákvað því að færa næsta rannsóknarþing um eitt ár. Stefnt er að því að PLANNORD verði með sérstakan panil innan heimsþingsins.

Vefsíða PLANNORD

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image