Skeifudagurinn 2016 á Sumardaginn fyrsta

Hestamannafélagið Grani á Hvanneyri býður til sannkallaðrar veislu á Sumardaginn fyrsta, 21. apríl nk, á Mið-Fossum í Borgarfirði. Þann dag verður Skeifudagurinn haldinn hátíðlegur í sextugasta skipti og vegna afmælisins verður dagurinn enn hátíðlegri en ella. Hátíðin hefst í hestamiðstöðinni Mið-Fossum kl 13.00 og eru allir velkomnir að líta við og fylgjast með dagskrá. Að henni lokinni verður kaffisala í Ásgarði á Hvanneyri og hið vinsæla folatollahappdrætti þar sem vinningar eru gjafabréf fyrir handhafa að leiða hryssu sína undir hina ýmsu stóðhesta og búa til framtíðargæðinga. Í Ásgarði verður einnig hægt að kynna sér nám við Landbúnaðarháskólann sem og námsaðstæður nemendagarðana á svæðinu.

Upphaf Skeifudagsins má rekja til stofnunar Hestamannfélagsins Grana á Hvanneyri árið 1954 en það var Gunnar Bjarnason, sem þá var kennari við skólann, sem stofnaði félagið ásamt nemendum við Bændaskólann á Hvanneyri, sem áhuga höfðu á hestamennsku. Gunnar var upphafsmaður kennslu í reiðmennsku og tamningum við skólann árið 1951. Mikill áhugi var meðal nemenda á þessháttar námi þó að aðstaða og húsakynni hefðu ekki verið upp á marga fiska í upphafi.

Síðan hafa mörg vötn runnið til sjávar og í dag hefur Grani aðgang að frábærri aðstöðu að Mið-Fossum í Andakíl auk þess sem að allir nemendur Landbúnaðarháskólans hverju sinni eru fullgildir meðlimir hestamannafélagsins Grana. Félagið stendur reglulega fyrir hinum ýmsu viðburðum yfir skólaárið jafnt fyrir hestaunnendur sem og aðra. Sem dæmi má nefna þríþraut Grana, árlega óvissuferð og hefðbundin hestaíþróttamót auk Skeifudagsins.

Skeifudagurinn er sannkölluð uppskeruhátíð nemenda í reiðmennskuáföngum skólans þar sem veitt eru hin ýmsu verðlaun. Þar má nefna Gunnarsbikarinn, sem fer til þess nemenda sem fær hæstu einkunn í fjórgangskeppni, ásetuverðlaun Félags Tamningamanna og Morgunblaðskeifuna sem fer til þess nemenda sem hlýtur hæstu meðaleinkunn úr verklegum reiðmennskuprófum. Morgunblaðsskeifan hefur verið veitt árlega síðan 1957, en mikill heiður þykir að hljóta Skeifuna og hafa sumir handhafar hennar seinna meir orðið einhverjir ástsælustu hestamenn landsins. Í tilefni afmælisins hafa fyrrum Skeifuhafar verið boðnir sérstaklega á hátíðina og eru allir fyrrum keppendur jafnframt boðnir velkomnir.

Háskóli Íslands

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image