Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Kristján Þór Júlíusson sótti heim Jarðræktarmiðstöð LbhÍ á Hvanneyri í gær og kynnti sér aðstöðu og aðbúnað til jarðræktarrannsókna.
Á fundinum var farið yfir kynbótastarfið sem hefur verið unnið, stöðu ræktunarinnar og nýsköpunar í greininni. Líflegar umræður sköpuðust á fundinum. Fundargestir úr ólíkum áttum voru sammála um að tryggja þyrfti fjármagn til rannsókna og efla yrði markað með innlent korn. Ásamt ráðherra komu gestir úr atvinnulífinu og Bændasamtökunum sem eiga það sameiginlegt að bera hag kornræktarinnar sem búgreinar fyrir brjósti.
Fundurinn var haldinn í húsnæði Jarðræktarmiðstöðvar LbhÍ á Hvanneyri og var hægt að virða fyrir sér tækjakost miðstöðvarinnar og skoða ýmislegt tengt rannsóknum skólans. Rektor Landbúnaðarháskólans Ragnheiður I. Þórarinsdóttir opnaði fundinn og Hrannar Smári Hilmarsson tilraunastjóri hjá Jarðræktarmiðstöð LbhÍ, Snorri Þorsteinsson jarðræktarráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð Landbúnaðarins og Júlíus Birgir Kristinsson hjá ORF líftækni héldu erindi.
Að loknu kaffi voru umræður þar sem Ólafur Eggertsson bóndi á Þorvaldseyri og Pétur Diðriksson bóndi á Helgavatni sögðu frá sinni reynslu af þróun og notkun á innlendu fóðri og lögð var áhersla á nauðsyn þess að koma upp stöðvum til þurrkunar á korni hérlendis sem og á að tryggja fjármagn fyrir samfelldar kynbætur.
--
Tengt efni