Hjá okkur hafa dvalið sérfræðingar frá Mongólíu og unnið með okkar sérfræðingum ásamt starfsfólki Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu Þjóðanna. Hópurinn fundaði og vann á Hvanneyri þessa vikuna og kynnti sína vinnu fyrir nemendum og starfsfólki skólans.
Í Mongólíu er stór hluti þjóðarinnar hirðingjar. Stóraukin búfjárbeit og námuvinnsla hafa aukið álag á beitilönd í Mongólíu á síðustu áratugum, auk þess sem loftslagsbreytingar hafa aukið á vandann. Lífsviðurværi hirðingjanna er í hættu og finna þarf nýjar leiðir til að bæta lífsafkomu þeirra á sama tíma og landið er nýtt á sjálfbæran hátt og landgæði bætt.
Föstudaginn 15.mars verður opin málstofa í sal Þjóðminjasafns Íslands kl 12 -13
Á málstofunni mun Dr. Bulgamaa Densambuu, virtur vistfræðingur í Mið-Asíu, fjalla um leiðir til að bæta landgæði og lífsafkomu mongólskra hirðingja. Bulgamaa hefur stundað rannsóknir og ráðgjöf í tengslum við sjálfbæra landnýtingu og landgræðslu í Mongólíu til fjölda ára. Í starfi sínu hefur hún unnið náið með hirðingjum sem byggja afkomu sína á landinu. Bulgamaa stundaði nám hér á landi árið 2007 í Landgræðsluskólanum.