Þegar Pavle Estrajh, Guðfinna Mjöll Magnúsdóttir, kölluð Finna, og Brynja Sigríður Gunnarsdóttir sátu saman námskeiðið „Mengun – uppsprettur og áhrif“ í námi sínu við Landbúnaðarháskóla Íslands, ákváðu þau setja upp heimasíðu með efni og upplýsingum um plastmengun. Þau sáu tækifæri í því að gera heimasíðu í stað ritgerðar, sem ekki hafði verið áður gert í áfanganum, og geta þannig miðlað upplýsingum áfram út fyrir skólastofuna.
Finna segist hafa hugsað mikið um plastmengun og að sig hafi lengið langað til að leggja eitthvað fram í þá umræðu. Námskeiðið „Mengun – uppsprettu og áhrif“, sem kenndur er af Cornelis Aart Meijles, er valáfangi sem stendur nemendum á öllum háskólabrautum til boða.
„Ég fór í áfangann að stóru leyti út af þessum áhuga og það var því frábært að fá tækifæri til að fjalla um plastmengun í verkefninu okkar. Brynja og Pavle voru bæði til í að taka þetta viðfangsefni fyrir og þannig tókst okkur að fjalla mun ítarlegar um þetta þó að við séum samt sem áður aðeins að taka fyrir hluta af vandamálinu.„
Mikilvægt að ákveða hvernig á að meðhöndla plastúrgang
Pavle segir að plastmengun í heiminum í dag sé mun meira en þau hafi gert sér grein fyrir. „Það er erfitt að vita nákvæmlega hve mikið er að um plastmengun í dag þar sem aðeins lítill hluti plasts er endurunninn og plastframleiðsla eykst þó með hverju ári. Mikið af plasti safnast upp í náttúrunni og er mjög lengi að brotna niður, jafnvel mörg hundruð ár, en plast brotnar ekki niður fyrir verkan örvera eins og flest lífræn efni, heldur brotnar það einna helst niður með hreyfingu eða undir sólarljósi. „
Pavle segir að plast sem hefur ekki verið eytt (með brennslu eða öðruvísi) er ennþá til í dag í einhverju formi. „Stórir plasthlutir liggja enn á ruslahaugunum eða í náttúrunni, fljóta í sjónum eða sökkva til botns, en minni plasthlutir komast inni í fæðukeðjuna og hafa áhrif á dýraríkið. Dýr geta átt að til að borða plast, án þess að vita hvað það er, og plastið safnast saman í meltingarveginum. Plasthlutir geta líka fests í öndunarvegi þeirra. Við borðum fiska eða spendýr sem hafa gleypt plasthluti og getum þá verið komin með plastagnir eða skaðleg efni sem finnast í plasti í líkama okkar.“
Þegar spurt er um þýðingu aukinnar plastmengunar í umhverfinu stendur ekki á svari. Mikilvægast sé að ákveða hvernig á að meðhöndla plastúrgang í framtíðinni og hvort það sé hægt að minnka hann á næstu áratugum.
„Í dag er plast komið í drykkjarvatn á mörgum stöðum í heiminum, og litlar plastagnir (örplast - microplastics) eru fyrir löngu komnir umhverfið okkar. Örplast getur verið af mismunandi toga, það má nefna til dæmis örplast frá bíldekkjum sem berst út í umhverfið sem svifryksmengun - uppruni svifryks er ekki einungis nagladekk heldur öll dekk. Við skiptum um dekk á bílnum okkar þegar þau eru slitin og þá hafa nokkrir millimetrar af yfirborðinu horfið út í andrúmsloftið - hversu mörg dekk eru þetta í heild og hversu mikið svifryk hafa þau skilað út í umhverfið? Annað dæmi dæmi er mengun frá þvottavélum - sokkaskrímsli eru víst til, og eru að berast í náttúruna sem malað plastefni. Einnig er plastefni að finna í ákveðnum hreinsivörum sem við notum reglulega, eins og tannkrem eða líkamsskrúbbur - það má lengi telja upp vörur sem eru að skila örplasti út í umhverfið, en plast af þessari stærð kemst oft beint út í sjó með frárennsli frá heimilum og þaðan í fæðukeðjuna.“
Hvað er hægt að gera til að sporna við plastmengun?
„Með því að minnka plastnotkun getum við beinlínis haft áhrif á plastmengun. Mikilvægast er að upplýsa alla vel um hvernig best er að umgangast plastrusl, sveitarfélög og móttökustaðir rusls þurfa að bjóða upp á góða og einfalda þjónustu þegar kemur að endurvinnslu plasts og eins er mikilvægt að hvetja fólk að nota annað efni í stað fyrir plasts. Ef plast fyrirfinnst í náttúrunni er það af mannavöldum án undantekningar.“
Pavle segir að það geti verið einfalt að minnka plastnotkun en þar gegna neytendur, við sjálf, lykilhlutverki. „Við þurfum öll að vera upplýst um skaðsemi plasts og meðvituð um nauðsyn þess að skipta út plasti fyrir umhverfisvæn efni. Við sem neytendur getum þannig haft áhrif á framleiðendur og þannig haft áhrif á að þeir velji umhverfisvæn efni í staðinn fyrir plast.“
Þau Pavle, Finna og Brynja vonast eftir að heimasíðan þeirra muni vera innlegg í umræðuna um minnkun plastnotkunar og plastmengunar.