Starfsmenn Garðyrkjuskóla LbhÍ á Reykjum í Ölfusi bjóða gestum og gangandi að kynna sér nám og störf í gróðurhúsunum á sumardaginn fyrsta þann 21. apríl nk.
Sumarfagnaðurinn stendur yfir frá kl. 10 til 17 og er allt áhugafólk um sumar og sól hjartanlega velkomið.
Vert er að minnast á að nýir nemendur verða teknir inn á námsbrautir Garðyrkjuskólans í haust og eru áhugasamir hvattir til að kynna sér námið og kennsluaðstæður á Reykjum.
Í Garðskálanum verður opið markaðstorg með brakandi ferskt og nýuppskorið hnúðkál og annað girnilegt grænmeti ,s.s. tómata, paprikur, gúrkur auk blóma, trjáa og runna. Þá verður hægt að kaupa þurrkað draugachili sem ræktað er í garðyrkjustöð skólans og kveikir örugglega í bragðlaukunum.. Á Reykjum eru ræktaðar kaffibaunir og verður hægt að kaupa sér nýmalað íslenskt kaffi og sérmerkta espresso bolla. Heimabakað ljúfmeti verður til sölu í mötuneyti skólans. Félög og fyrirtæki af ýmsu tagi verða með kynningu á vörum og þjónustu og í skólastofum verður sýning á landslagsverkum myndlistarmansins Hjalta Parelius.
Í gróðurhúsum skólans er hægt að njóta gróðursins og skoða verkefni nemenda. Í Bananahúsinu eru að sjálfsögðu bananar, kaffiplöntur, fíkjur og fjölbreyttur hitabeltisgróður. Í verknámshúsi skrúðgarðyrkjubrautar eru grjóthleðslur, grænir veggi, tjarnir og fleira áhugavert. Tilraunahús garðyrkjunnar verður einnig opið.
Uppboð verður á gömlum garðyrkjubókum sem margar hverjar eru orðnar illfáanlegar s.s. Bjarkir, Hvannir og Rósir eftir Einar Helgason og Bjarni Diðrik Sigurðsson kynnir Sveppahandbók sína sem gefin var út á síðasta ári og verður hún til sölu fyrir þá sem vilja tryggja sér eintak.
Á útisvæði skólans verður hægt að gæða sér á ketilkaffi (skógarkaffi) sem hitað verður yfir varðeldi. Þá mæta félagar í Bifreiðaklúbbi Suðurlands með fornbílana sína og félagar í vélhljólaklúbbnum Postulum mæta á hjólunum.
Margt fleira verður sér til gamans gert en allra skemmtilegast er að mæta í sumarskapi og gleðjast saman. Sumarið byrjar í Garðyrkjuskólanum á Reykjum.