Vistheimt í Þórsmörk. Svæðið sem sést var að mestu orðið skóglaust áður en Mörkin var friðuð. Sums staðar var sáð og borið á moldir, víðistiklum var stungið niður á nokkur svæði og fleira gert, en inngrip voru þó fremur takmörkuð miðað við heildarstærð svæðisins. MYND/ÓA 2020
Út er komið rit sem nefnist „Loftslag, kolefni og mold“. Höfundar eru Ólafur Arnalds og Jón Guðmundsson. Ritið nr. 133 í ritröð LbhÍ.
Jarðvegur er afar mikilvægur fyrir kolefnishringrás jarðar og styrk gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu. Losun kolefnis úr mold er meginuppspretta losunar CO2 frá Íslandi – mun stærri uppspretta en sem nemur losun af mannavöldum þegar landið er ekki talið með.
Ritið gefur yfirlit um þessa losun sem og áætlaða losun vegna eyðingar íslenskra vistkerfa síðasta árþúsund (þúsundir milljóna tonna CO2). Mikil losun frá landi útskýrir gríðarlega stórt sótspor dilkakjötsframleiðslu og hestaeignar (getur numið hundruðum kg CO2 á hvert kg lambakjöts). Framræst votlendi og þurrlendisvistkerfi í slæmu ástandi valda mestu um þetta stóra sótspor. Það er þó afar misjafnt eftir eðli lands og landnýting hverju sinni hve losunin er mikil, skynsamleg landnýting leiðir til kolefnisbindingar.
Unnt er að draga úr losun með því að bæta ástand land og endurheimt votlendis sem ekki er nýtt til ræktunar. Endurheimt vistkerfa á landslagsskala, t.d. birkiskóga geta stuðlað að stórfelldri bindingu gróðurhúsaloftegunda, jafnvel milljónir tonna CO2 á ári. Endurskoða verður nýtingu á illa förnu landi og víkka út þann hóp sem telst til hagaðila er varðar nýtingu lands í eigu samfélagsins.
Ritið í heild sinni má nálgast hér
--