Hjördís Sigurðardóttir hlaut á dögunum samþykki inn í frumkvöðlahraðalinn Startup Reykjavík með hugmynd sína að byggingu sjálfbærra gróðurhúsa í hjarta höfuðborgarinnar sem bjóða upp á nýja upplifun í ferðaþjónustu. Hjördís er menntaður umhverfisskipulagsfræðingur frá LbhÍ og skipulagsfræðingur frá Wagningen University í Hollandi. Auk þess er hún menntaður matvælafræðingur. Fyrirtæki Hjördísar, Spor í Sandinn ehf., leggur í dag megináherslu á að þróa viðskiptahugmynd sem gengur út að nýta betur hið byggða umhverfi og þá möguleika sem það felur í sér. Fyrirtækið stefnir á að reisa sjálfbær gróðurhús tengd sundlaug í hjarta borgarinnar og bjóða upp á sölu staðbundinna matvæla og nýja upplifun í ferðaþjónustu fræðslu og afþreyingu. “Við erum afar stolt af okkar náttúru og auðlindum en förum að sama skapi ekki sérlega vel með - ef allir ættu að lifa eins og við íslendingar þyrfti mannkynið 11 jarðir. Viðskiptahugmyndin gengur út á að skapa vistavænan klasa í byggðu umhverfi - úr sundlaug og gróðurhúsi. Með því er markmiðið að fullnýta orku og efni við framleiðslu á fiski, grænmeti og ávöxtum en að sama skapi að búa til endurnærandi stað fyrir íbúa og gesti.”
Einn af þeim stöðum sem horft er til í tengslun við verkefnið er við Laugardalslaug.
Startup Reykjavík er frumkvöðlahraðal sem KlakInnovit og Arion banki standa að. Hjördís segir að styrkurinn sé mikil viðurkenning, en hugmynd hennar var meðal 10 af 150 sem sendar voru inn. “Þetta er mikil viðurkenning þar sem umsækjendur voru mjög margir. Mjög gjarnan er eitthvað hugbúnaðartengt sem verið er að þróa þarna og sjaldan að viðskiptahugmyndir sem hafa að gera með umhverfisskipulag séu þarna. Það að komast inn í svona prógramm gefur manni tækifæri til að byggja upp sterkt tengslanet, miðla, aðstoða aðra og vera hjálpað. Þarna fæ ég vinnuaðstöðu, aðgang að reyndu fólki úr atvinnulífinu (mentora), fjárstyrk upp á 2 miljónir gegn hlutafé og tækifæri til að kynna viðskiptahugmyndina fyrir fjárfestum.”
Hjördís segir að námið í Hollandi hafi verið þverfaglegt og hún hafi orðið fyrir miklum áhrifum þar og myndað þá sýn sem hún hefur í skipulags-og samfélagsmálum í dag. “Þar liggur mikið við að hafa áhrif á umhverfismeðvitund unga fólksins, nýta allt betur þ.m.t. orku, virkja sköpun og búa til þverfaglegt samtal því það er lykill að því að finna launir til framtíðar. Ég gerði sjálf alþjóðlega raundæmarannsókn á sviði borgarbúskapar og hef síðan þá leitt hugann að því hvernig mætti færa rök fyrir því að þróa eitthvað skemmtilegt og viðskiptatengt á því sviði hérlendis. “
Hjördís er hugmyndasmiðurinn á bak við viðskiptahugmyndina en hún hefur ráðið til sín mjög öfluga aðila í teymið sitt. Það eru Sveinn Aðalsteinsson plöntulífeðlisfræingur, Hafsteinn Helgason verkfræðingur hjá Eflu og Ragnhildur Skarphéðinsdótir hja Hornsteinum arkitektum. “Svo má líka geta þess að ég var svo heppin að fá styrk úr nýsköpunarsjóð námsmann ásamt Eflu verkfræðistofu, til að gera rannsókn á orkulega þætti verkefnisins en það er Aron Leví Beck Rúnarsson byggingafræðingur og MS nemi í skipulagsfræði sem hefur verið ráðinn í það og er því í raun 5 aðili teymisins. Verkefnið hefur nú þegar farið af stað og talsverð vinna verið lögð í það, en prógrammið sjálft hefst 15. júní og endar 28. ágúst með kynningu fyrir fullum sal fjárfesta og áhugasamra. Komandi sumar verður mjög krefjandi en að sama skapi rosaleg skemmtilegt”.
Hjördís er fjögurra barna móðir, tvö eru uppkomin og tvö eru í grunnskóla. “Síðasta ár hef ég unnið sjálfstætt sem ráðgjafi en einnig hef ég komið að kennslu í skipulagsfræði. Þar sem ekki var nóg að gera verkefnaleg hjá mér hóf ég í haust að þróa eigin viðskiptahugmynd sem hefur nú á síðustu misserum tekist á flug. Ég hef ýmsar hugmyndir í kollinum, það er bara spurning um að finna réttu kaupendurna af þeim.” segir Hjördís að lokum.