Rannsóknahópurinn: Ingeborg Klarenberg (HA), Alice Cosatti og Julia Bischof (Erasmus skiptinemar við LbhÍ), Gunnhildur Eva Gunnarsdóttir og Úlfur Óskarsson (LbhÍ) og Starri Heiðmarsson (NÍ). Bjarni Diðrik (LbhÍ) tók myndina.

Rannsóknaleiðangur í Esjufjöll

Image
Fossadalur í Esjufjöllum og jökullónið sem myndaðist árið 2003 þegar skriðjökullinn í botni dalsins hætti að renna fram. Lónið var reynar horfið núna og jakarnir stóðu á þurru! Bráðnunin á jöklinum er alveg ótrúlega hröð, og gróðurreitir sem voru við jökulröndina árið 2006 eru núna í um 60-70 m hæð yfir yfirborði hans. Ljósm. Bjarni Diðrik Sigurðsson (LbhÍ)
Image
Ætihvönn og maríustakkur í brekkum Fossadals í Esjufjöllum, í um 650 m h.y.s. Ljósm. Bjarni Diðrik Sigurðsson (LbhÍ).
Image
Jöklasóley í um 900 m h.y.s. í Esjufjöllum. Ljósm. Bjarni Diðrik
Image
Gunnhildur Eva og Alice í brattri smjörlaufsbrekku (grasvíðibrekku) í Skálabjörgum í Esjufjöllum. Ljósm. Bjarni Diðrik Sigurðsson (LbhÍ)

Í síðustu viku fór hópur náttúrufræðinga í rannsóknaleiðangur í jökuleyjarnar Esjufjöll í Breiðamerkurjökli í A-Skaftafellssýslu. Þar fara fram langtíma rannsóknir á áhrifum hlýnandi veðurfars á gróðurmörk og gróðursamfélög; en svæðið er eitt af fáum grónum svæðum Íslands þar sem engin landnýting hefur farið fram og hentar því vel til að rannsaka áhrif annarra þátta. Rannsóknaverkefnið er samstarfsverkefni Landbúnaðarháskóla Íslands og Náttúrufræðistofnunar Íslands; og í tengslum við það eru ákveðin föst gróðursnið mæld á fimm ára fresti til að fylgjast með breytingum sem verða, auk þess sem nýrra plöntutegunda er leitað og þær skráðar, auk ýmissa mælinga á ýmsum jarðvegs- og umhverfisþáttum.

Það er alltaf einstök upplifun að koma upp í Esjufjöll á þessum árstíma! Eftir um 10 klst göngu á jökli eru viðbrigðin mjög sterk að koma í þennan blómagarð í miðjum jöklinum, en fjölbreytileiki og gróska gróðurs er þarna ótrúlega mikil. Fyrir leiðangurinn voru þekktar nákvæmlega 100 tegundir háplantna í Esjufjöllum, en í leiðangrinum fundust þrjár nýjar tegundir háplantna, tvær íslenskar orkideur (barnarót og kræklurót) og ein grastegund (ilmreyr). Alls telur því flóra Esjufjalla 103 tegundir háplantna.

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image