Síðastliðinn föstudag kom starfsfólk súkkulaðigerðarinnar Omnom í heimsókn í Garðyrkjuskólann á Reykjum. Omnom er einungis tveggja ára gamalt fyrirtæki en hefur vegur þess risið hratt, meðal annars fengu vörur þeirra þrenn silfurverðlaun á alþjóðlegu súkkulaðikeppninni ICA í London nú í haust. Hópurinn fékk leiðsögn um hverasvæði og gróðurhús skólans en hápunktur heimsóknarinnar var þegar hópurinn stillti sér upp við myndarlegustu kakóplöntuna á Reykjum. Guðríður Helgadóttir, staðarhaldari á Reykjum, segir að nú séu einungis 3-4 ár þar til plantan getur farið að bera aldin og þá verður hægt að búa til súkkulaði úr heimaræktuðum kakóbaunum. Starfsmenn Omnom komu færandi hendi með úrval af gæðasúkkulaði fyrirtækisins og er óhætt að segja að starfsmenn á Reykjum hafi notið kaffitímanna sérlega vel undanfarna daga.
Hópurinn og kakóplantan