Í byrjun árs 2020 kom upplýsinga- og skjalastjóri til starfa hjá Landbúnaðarháskóla Íslands en þá hófst vinna við að innleiða heilstæða skjalastjórnun sem felst m.a. í innleiðingu á stefnu og verklagi við mendhöndlun gagna, innleiðingu á rafrænu mála- og skjalavörslukerfi o.fl. en Landbúnaðarháskólinn varð fyrsti skólinn til að taka upp WorkPoint skjalakerfið á síðasta ári.
Ásamt áðurtöldum verkefnum er auk þess hafin vinna við að ná yfirsýn yfir eldri skjöl í vörslu skólans, en töluvert magn er til að þeim á starfsstöðvum skólans, þau skjöl tilheyra að minnsta kosti 5 eldri stofnunum; Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri, Garðyrkjuskóla ríkisins, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Atvinnudeildar Háskólans landbúnaðardeild og Verkfæranefnd ríkisins auk ýmissa félaga sem skólinn á eða átti eignarhlut í. Ekki er þó alveg búið að skoða allar geymslur sem skólinn hefur umsjón með en miklar heimildar eru faldar í skjölunum að mati Sólveigar Magnúsdóttur upplýsinga- og skjalastjóra.
Landbúnaðarháskóli Íslands ásamt eldri stofnunum eru eins og flestar aðrar opinberar stofnanir skilaskyldar á skjölum sínum til Þjóðskjalasafns Íslands samkvæmt Lögum um opinber skjalasöfn nr. 77/2014 og er vinna framundan við að skrá og pakka hverri stofnun fyrir sig.
Á háalofti í svo kölluðu Skólastjórahúsi á Hvanneyri eru geymd eldri skjöl og má þar finna skjöl sem urðu til í starfsemi skólans. Fengist hefur heimild frá Þjóðskjalasafni Íslands til að eyða hluta af þeim skjölum s.s. bókhaldsskjölum sem verða send í eyðingu en öðrum skjölum verður komið til varanlegrar varðveislu á Þjóðskjalasafn Ísland.