Út er komið nýtt hefti ritsins Surtsey Research og er það númer 14 í röðinni. Mynd af kápu ritsins

Nýtt rit um rannsóknir í Surtsey

Surtseyjarfélagið hefur gefið út ritið Surtsey Research 14. Í því eru 11 vísindagreinar eftir 29 höfunda frá sex þjóðlöndum, þar á meðal eru núverandi og fyrrverandi starfsmenn og framhaldsnemar við Landbúnaðarháskóla Íslands.

Surtsey Research birtir greinar á ensku um rannsóknir í Surtsey og um tengd efni frá öðrum eldfjallasvæðum. Liðin eru 55 ár frá því fyrsta ritið kom út. Framan af voru ritin prentuð en síðustu tvö rit eru aðeins gefin út á rafrænu formi. Meðal efnis í nýja heftinu eru þrjár greinar um jarðfræði Surtseyjar sem fjalla um fyrstu niðurstöður úr hinu viðamikla djúpborunarverkefni sem unnið var að í Surtsey sumarið 2017. Jafnframt er grein um rof og setflutninga og birt er nýtt landlíkan af eynni sem byggir á myndatökum með dróna. Í líffræði birtast fimm greinar sem fjalla meðal annars um landnám hveldýra (hydrozoa) á grunnsævi við Surtsey, erfðafræði fjöruarfa, jarðvegsmyndun og framvindu gróðurs í eynni og áhrif sjófugla og sela þar á. Þá birtist í ritinu grein um veðurfar í Surtsey, en sjálfvirk veðurstöð var sett þar upp árið 2009. Ennfremur er í grein fjallað um örnefni í eynni og rakin myndun þeirra. Ritið og einstakar greinar þess má nálgast á vef Surtseyjarfélagsins. Þar má sömuleiðis nálgast eldri útgáfur í ritröðinni.

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image