Beinasafn LbhÍ
Út er komið nýtt rit í ritaskrá LbhÍ, Samanburðarsafn í dýrabeinafornleifafræði við Landbúnaðarháskóla Íslands: Staða og framtíðarhorfur 2016. Höfundar er Albína Hulda Pálsdóttir og Elísa Skúladóttir.
Safn Landbúnaðarháskólans inniheldur að mestu íslensk spendýr, fugla og fiska. Sýnin eru um 300 og eru þar af 223 sýni tilbúin til notkunar. Ítarlegar upplýsingar fylgja mörgum sýnum þ.á.m fundarstaður, tegund, aldur og kyn.
Skráð eru 137 spendýrasýni í gagnagrunn safnsins og eru nokkur enn í verkun. Í þennan hluta safnsins vantar helst fleiri selir af þekktri tegund, aldri og kyni, folald, höfuðkúpu af bæði hyrndum nautgrip og hrút ásamt heilli beinagrind af fullorðnum nautgrip.
Staða fuglasýna er mjög góð og eru sýnin 138 talsins, þar með talin ókláruð sýni. Meirihluti sýnanna eru heilar beinagrindur og tegundasamsetning þess mjög góð. Þó vantar fleiri endur, sjófugla, vaðfugla og mávategundir. Í safninu eru 22 beinagrindur af íslenskum hænsnum, af báðum kynjum á ýmsum aldri.
Söfnun beinagrinda fiska hefur gengið hægt þar sem mikil vinna liggur á bak við hvert sýni. Nú eru í safninu 40 fiskbeinagrindur og þarf að bæta tegundaúrval auk þess að fjölga einstaklingum af mismunandi stærðum innan tegunda.
Landbúnaðarháskóli Íslands hefur komið upp góðri aðstöðu til þess að verka sýni auk þess er aðstaða fyrir vísindamenn sem vilja nýta sér safnið til greininga. Listi yfir þau sýni sem aðgengileg eru í safninu er birtur á heimasíðu Landbúnaðarháskóla Íslands.