Út er komin samnorræn skýrsla sem fjallar um hindranir í lífrænni ræktun á norðurskautssvæðum Norðurlandanna, ritið nefnist Barriers to Organic Agriculture in the Arctic.
Með stuðningi frá Norrænu Ráðherranefndinni stofnaði LbhÍ vinnuhóp sem hafði það að markmiði að skrá og lýsa hindrunum sem takmarkar vöxt lífræns vottaðs landbúnaðar á norðurskautssvæðum Norðurlandanna (Íslandi, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi). Einnig var það hlutverk vinnuhópsins að benda á valkosti sem gætu rennt traustari stoðum undir lífvænlegan landbúnað á norðurskautssvæðum.
Þrátt fyrir að Ísland liggi rétt sunnan við norðurheimskautsbaug telst það allt tilheyra norðurskautssvæðinu í þessu samhengi vegna þess að svotil allt landið er norðan við 10°C jafnhitalínuna í hlýjasta mánuði ársins sem er júlí. Ísland er eina landið í heiminum þar sem stundaður er verulegur landbúnaður norðan við 10°C jafnhitalínuna.
Landbúnaður á norðurskautssvæðum er einstakur vegna fámennis, fjarlægðar við markaði, loftslags, sérstaks jarðvegs og oft erfiðra landaðstæðna. Þar er fyrst og fremst stunduð búfjárrækt en garðyrkja er takmörkuð nema á Íslandi. Ráðandi nytjajurtir í ræktun eru fjölær fóðurgrös fyrir búfénað og korn er einungis ræktað að einhverju ráði í Svíþjóð og á Íslandi. Vaxtartíminn er stuttur í Skandinavíu og einstaklega svalur á Íslandi sem leiðir til þess að uppskeran er minni en sunnar á Norðurlöndunum.
Því hefur verið haldið á lofti að lífrænn landbúnaður við þessar aðstæður ætti að vera auðveldari en annarsstaðar vegna þess að notkun tilbúins áburðar og varnarefna er minni en þekkist á suðlægari slóðum. Þessi skýrsla tekur ekki undir þær staðhæfingar heldur þvert á móti.
Hefðbundinn landbúnaður á norðurskautssvæðum er að flestu leyti lítið frábrugðinn lífrænt vottuðum landbúnaði og hindranir fyrir framgangi þessara framleiðslukerfa eru að mörgu leyti þær sömu.
Meginhindranir lífrænnar ræktunar á norðurskautssvæðinu eru:
- Tiltölulega meira uppskerubil milli lífræns og hefðbundins kerfis en þekkist í hlýrra loftslagi vegna stutts vaxtartíma og lágs hita sem dregur úr skilvirkni lífræns áburðar
- Skortur á lífrænt vottuðu hráefni, aðallega áburði en einnig sáðvöru
- Skortur á lífvænlegum markaði sem er tilbúinn að greiða ásættanlegt verð til framleiðenda
- Of dýrt vottunarkerfi sem er ekki nægjanlega aðlagað aðstæðum á norðurskautssvæðum.
Lífræn vottun er alþjóðlegt vörumerki sem hefur enga sérstaka skírskotun til norðurslóða og gerir ekki greinarmun á milli framleiðslusvæða í heiminum. Stjórnvöld ættu því að leita annarra leiða til styðja sérstaklega við sjálfbæran landbúnað á norðurskautssvæðum með því að draga betur fram sérstöðu þeirra.