Nýjar samanburðarrannsóknir við Surtsey

Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ), í samstarfi við Náttúrustofu Suðurlands í Vestmannaeyjum og Náttúrufræðistofnun Íslands, hefur hafið mjög skemmtilegt rannsóknaverkefni þar sem jarðvegur og smádýralíf hinnar 50 ára gömlu Surtseyjar er borið saman við um 5400-5600 ára gamlar „Surtseyjar“; það er næst stærstu úteyja Vestmannaeyja á eftir Surtsey, Elliðaey (eða Ellirey) og Lyngfellsdal á Heimaey, sem myndaðist í gosi á sama tíma. Þessar rannsóknir eru hluti af doktorsverkefni Niki Leblans, sem er í doktorsnámi við LbhÍ og háskólann í Antwerpen í Belgíu.

Á meðfylgjandi mynd má sjá að það er ekki auðhlaupið að komast upp í eyjuna. Hér er það Elín Guðmundsdóttir, meistaranemi við LbhÍ, hættir hér lífinu fyrir vísindin. Ljósm. Bjarni Diðrik Sigurðsson.

Á Surtsey hafa myndast tvö megin vistkerfi. Annarsvegar er þar gróskumikið graslendi þar sem áhrifa sjófugla gætir, en samkvæmt rannsóknum Niki Leblans sumarið 2012 þá eru þeir að bera á hverju ári um 70 kg köfunarefnis (N) á hvern hektara lands þar sem þeir verpa. Forði af þessu nauðsynlega næringarefni, sem skortir í jarðveg Surtseyjar í upphafi, byggist þannig upp fyrir tilstuðlan sjófuglanna. Hinsvegar er um að ræða mjög ófrjósamt svæði, þar sem eingöngu plöntur með stór og útbreidd rótarkerfi fá þrifist. Ofanjarðar vaxa þessar plöntur bara í þúfum og svæðið lítur enn út fyrir að vera meira og minna ógróið, vegna þess að hver þúfa þarf svo stórt svæði út frá sér fyrir rótarkerfi sitt, sem er 20-50 sinnum meira en það sem vex ofanjarðar eftir tegundum. Samkvæmt rannsóknum Niki þá er uppsafnaður forði N á þessu svæði um það bil 1,5 kg N á ha á ári; en það er það magn sem berst inn í vistkerfin hér sunnanlands með úrkomu.

Elliðaey og Lyngfellsdalur á Heimaey eru síðan góður samanburður við þessi tvö megin svæði Surtseyjar og gefa væntanlega góða hugmynd hvernig Surtsey mun þróast í framtíðinni. Í Elliðaey er mikið af sjófuglum (lunda, skrofu, sæsvölu og landsvölu) sem verpa í holum uppi á eyjunni og bera mikið á og viðhalda gróskumiklu graslendi. Í lyngfellsdal á Heimaey, sem er aðlukt svæði sem ekki er opið á móti hafi, hafa sennilega aldrei verið neinar þéttar sjófuglabyggðir. Enda er þar gróskan mun minni og gróðurfarið minnir meira á hefðbundin graslendi Íslands.

Einn þáttur er þó ólíkur Surtsey bæði á Heimaey og Elliðaey, en það er að þar gengur sauðfé. Því er nauðsynlegt að beitarfriða ákveðna bletti í eitt sumar til að geta gert samanburðarhæfar mælingar á grósku. Vegna þessa var farinn leiðangur með beitarfriðunarbúr þann 9 maí s.l. Eins og segir í kvæðinu: „allir komu þeir aftur, og enginn þeirra dó“ átti ágætlega við um þennan leiðangur.

Leiðangursmenn voru alls sex. Frá LbhÍ voru það þau Niki Leblans, Elías Óskarsson, Elín Guðmundsdóttir, Bjarni Diðrik Sigurðsson og sonur hans Sigurður Sturla, og frá Náttúrustofu Suðurlands var Ingvar Atli Sigurðsson. Georg Skæringssonog sonur frá Þekkingarsetrinu í Vestmannaeyjum önnuðust flutning til og frá Elliðaey með bát setursins, Friðriki Jenssyni VE 171, og kunnum við þeim hinar bestu þakkir fyrir. Einnig er „Elliðaeyingunum“ Ívari Atla og Marinó þökkuð aðstoð við skipulagningu og staðarval. Það er Niki Leblans, doktorsnemi við LbhÍ, sem er á myndinni t.v. Hún er þarna við mælingar í Surtsey sumarið 2012.

Háskóli Íslands

/bds

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image