Hér má greinilega sjá áhrif jarðveghita á grænkun að vori í rannsóknareit í Grændal í Ölfusi. Ljósm. Bjarni D. Sigurðsson.

Ný vísindagrein um áhrif loftslagsbreytinga frá LbhÍ

Image
Niki Leblans (t.h.) og Gunnhildur E. G. Gunnarsdóttir (t.v.) mæla grænkustuðul (NDVI) graslenda í Grændal í Ölfusi að vori. Ljósm. Bjarni D. Sigurðss

Út er komin grein frá ForHot rannsóknaverkefninu á Reykjum í Ölfusi í vísindaritinu Global Change Biology um áhrif jarðvegshlýnunar á lengd vaxtartíma íslenskra graslenda.

Greinina má nálgast HÉR.

Breytingar á lengd vaxtartíma eru yfirleitt stærsti áhrifaþáttur hlýnandi loftslags á norðlæg vistkerfi og hlýnun síðustu þriggja áratuga hafa einmitt valdið miklum breytingum á grósku á Íslandi og annarra norðurslóða, eins og ítrekað hefur verið sýnt fram á með gerfihnattamælingum. Á síðasta áratug hefur hinsvegar dregið heldur úr hraða þessara gróðurbreytinga þrátt fyrir áframhaldandi hlýnun, en það hefur kallað á mikla fræðilega umræðu um hvað valdi. Með jarðhitastiglunum á Reykjum er hinsvegar hægt að skoða mismikla hlýnun og einnig hlýnun sem hefur staðið í mislangan tíma, til að reyna að öðlast betri skilning á hvort einhver “aðlögun” sé vænanleg með frekari hlýnun hérlendis.

Niðurstöðurnar voru að vaxtartími graslendanna á Reykjum var var um 120 dagar sumurin 2013-2015 við náttúrulegar aðstæður, en lengd vaxtartímans jókst línulega um 2.1 dag fyrir hverja gráðu sem jarðvegshiti vorsins hækkaði og miðað við mestu hlýnun sem spáð er í lok aldarinnar gæti lengd vaxtartíma aukist um rúmlega einn mánuð. Það kom ekkert fram sem benti til “mettunar” í svörun graslendanna við aukinni hlýnun og skýringa á áðurnendri “hægingu” er því ekki að leita í lífeðlislegri aðlögun plantnanna að auknum hita, eins og sumir fræðimenn hafa lagt til.

Lenging vaxtartímans varð aðallega vegna þess að vöxtur hófst fyrr að vori með aukinni hlýnun, en þrátt fyrir jafn mikla hlýnun að hausti, þá lengdist vaxtartíminn lítið sem ekkert í þá áttina. Þetta þýðir að breytingar á upphafi vaxtartíma íslenskra graslenda eru undir sterkri stjórn vetrar- og vorhita (hitasummu), eins og vel er þekkt úr eldri landbúnaðarrannsóknum, og sú stjórn breytist hvorki með auknum hita né tíma sem graslendin hafa upplifað upphitunina, a.m.k. á meðan nýjar tegundir nema ekki land. Haustun virðist fremur vera stjórnað af ljóslotu, og þrátt fyrir að hlýni þá virðast íslensku grastegundirnar ekki geta (eða þurfa) lengt vaxtartímann mjög langt fram eftir árinu, heldur fara að ganga frá sér eftir að blómgun og fræfall hefur átt sér stað.

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image