Ný reglugerð heilbrigðisráðherra um takmarkanir á skólastarfi hefur verið gefin út og tekur gildi þriðjudaginn 3. nóvember nk. Reglugerðin gildir um allt skólastarf á landinu. Nemendur fá nánari upplýsingar um útfærslur námskeiða hjá kennurum og kennsluskrifstofu. Mikilvægt að fylgjast með tilkynningum í Uglu, Canvas og vefpósti.
Framhaldsskólar og menntastofnanir sem kenna á framhaldsskólastigi:
Skólastarf er heimilt ef nemendur og starfsfólk geta haft minnst 2 metra fjarlægð sín á milli og fjöldi nemenda og starfsmanna fer ekki yfir 10 í hverju rými. Í áföngum á fyrsta námsári mega allt að 25 einstaklingar deila sama rými, svo fremi sem tveggja metra fjarlægð milli einstaklinga er tryggð. Blöndun nemenda milli hópa er ekki heimil í kennslu en starfsfólki er heimilt að fara á milli hópa. Í sameiginlegum rýmum, svo sem við innganga, í anddyri, á salerni og göngum, er heimilt að víkja frá fjöldatakmörkun og reglu um blöndun hópa að því gefnu að notast sé við andlitsgrímu. Við aðstæður þar sem ekki er hægt að framfylgja nálægðartakmörkun, svo sem í verklegri kennslu, listkennslu, klínísku námi og kennslu nemenda á starfsbrautum, skulu nemendur, sé þess kostur, og kennarar nota andlitsgrímu. Aðrir viðburðir sem ekki teljast til kennslu eða náms skulu ekki fara fram í skólabyggingum. Takmarka skal gestakomur í skólabyggingar. Heimilt er að halda þýðingarmikil próf fyrir allt að 30 einstaklinga í vel loftræstum rýmum, að uppfylltri 2 metra nálægðartakmörkun og ýtrustu sóttvarnaráðstöfunum.
Háskólar:
Skólastarf er heimilt ef nemendur og starfsfólk geta haft minnst 2 metra fjarlægð sín á milli og hámarksfjöldi nemenda í hverri kennslustofu fer ekki yfir 10. Blöndun nemenda milli hópa er ekki heimil í kennslu en starfsfólki og kennurum er heimilt að fara á milli hópa. Í sameiginlegum rýmum, svo sem við innganga, í anddyri, á salerni og göngum, er heimilt að víkja frá fjöldatakmörkun og reglu um blöndun hópa að því gefnu að notaðar séu andlitsgrímur. Við aðstæður þar sem ekki er hægt að framfylgja nálægðartakmörkun, svo sem í verklegri kennslu, listkennslu og klínísku námi, er skólastarf heimilt með því skilyrði að nemendur og kennarar noti andlitsgrímu. Aðrir viðburðir sem ekki teljast til kennslu eða náms skulu ekki fara fram í skólabyggingum. Takmarka skal gestakomur í skólabyggingar. Heimilt er að halda samkeppnispróf, þýðingarmikil lokapróf og staðbundnar námslotur fyrir allt að 30 einstaklinga í vel loftræstum rýmum, að uppfylltri 2 metra nálægðartakmörkun og sóttvörnum í hvívetna.