Vorið fer vel af stað hjá Endurmenntun LbhÍ og er úrval námskeiða afar gott og fjölbreytt. Í bland við fasta liði eins og rúningsnámskeið, húsgagnagerð og trjáfellingar koma inn ný námskeið. Má þar t.a.m. nefna að í mars verður haldið sútunarnámskeið á Hvanneyri. Eins þá verða haldin tvö ný námskeið á Reykjum í samstarfi við evrópska verkefnið ASCENT sem Landgræðslan tekur þátt í. Námskeiðin snúa að framkvæmdum ýmiskonar á ferðamannastöðum. Námskeið um notkun varnarefna í landbúnaði og garðyrkju sem og við eyðingu meindýra verður haldið á ný á Keldnaholtinu í lok febrúar og kemur m.a. stór hópur golfvallastarfsmanna á það námskeið í ár. Þá höfum við endurvakið blómaskreytingarnámskeiðin og munum bjóða upp á amk. eitt slíkt á Reykjum í lok apríl.
Þá er stefnt að því, með vorinu, að fara af stað með hóp í Grænni skógum á Vestur- og Suðurlandi. Vinsælasta námskeið Endurmenntunar, Reiðmaðurinn,telur fjóra hópa sem fá kennslu á þremur stöðum um landið; Krókur á Suðurlandi, Mosfellsbæ og tveir hópar í Borgarnesi. Tveir hópar eru á öðru ári í Reiðmanninum í Sprett í Kópavogi og á Selfossi. Það eru því vel yfir áttatíu nemendur sem stunda nám í Reiðmanninum í vetur og um leið yfir áttatíu hross sem stunda formlegt nám við skólann!