Mikill áhugi og góð stemmning var á Háskóladeginum þar sem allir háskólar landsins koma saman og kynna sitt nám og bjóða fólki að koma og skoða.
Opnað hefur verið fyrir umsóknir fyrir komandi skólaár og hægt að skoða nánar námsframboð okkar hér. Við sérhæfum okkur á sviði verndunar, viðhalds og nýtingar náttúru íslands í víðum skilningi og því sem á henni lifir. Við stöndum fyrir sjálfbærni, hagsæld og framsækni í okkar nálgun.
Framundan eru gríðarlegar áskoranir í umhverfismálum og matvælaframleiðslu. Hnattrænar loftlagsbreytingar ógna landbúnaði um allan heim og munu gera framleiðslu matvæla erfiðari. Þetta kallar á að við hlúum að landbúnaði hér á landi og LbhÍ gegnir lykilhlutverki að þjálfa upp mannauð sem mun fá það hlutverk að glíma við þessar breytingar.
LbhÍ vill efla nýsköpun, rannsóknir og kennslu á öllum fræðasviðum skólans sem eru landbúnaður, garðyrkja, landgræðsla, umhverfisvísindi og landskipulag. Umhverfismál og sjálfbær nýting auðlinda á landi eru okkur mikið kappsmál og að efla atvinnugreinar á sviði skólans með tækniframförum og stefnumótun.