Nemendur Landbúnaðarháskóla Íslands á háskólabrautum og búfræði voru brautskráðir sl. föstudag við athöfn í Reykholtskirkju að viðstöddu fjölmenni. Alls útskrifuðust 47 búfræðingar, en 27 með BS í búvísindum, náttúru- og umhverfisfræði, skógfræði og landgræðslu. Þá luku níu nemendur meistaranámi í rannsóknabundnu námi og tveir meistaranámi í skipulagsfræðum. Drífa Árnadóttir og Katrín Pétursdóttir fengu verðlaun fyrir frábæran árangur fyrir lokaverkefni á BS-prófi en Aron Stefán Ólafsson fékk verðlaun fyrir bestan árangur á BS-prófi. Brynja Davíðsdóttir fékk verðlaun fyrir góðan árangur á MS-prófi og Egill Þórarinsson verðlaun fyrir góðan árangur á MS-prófi í skipulagsfræðum.
Í ræðu Ágústar Sigurðssonar, rektors, kom fram að þetta er níunda vorið sem nemendur eru brautskráðir frá Landbúnaðarháskóla Íslands. Nú voru 87 brautskráðir sem er litlu færri en síðasta vor - en þá voru þeir fleiri en nokkru sinni er nemendur útskrifuðust af öllum brautum skólans. Alls voru á þessu skólaári 63 nemendur í framhaldsnámi við LbhÍ, þar af er 31 nemandi í rannsóknamiðuðu mastersnámi, 25 í meistaranámi í skipulagsfræði og sjö nemendur í doktorsnámi. Eru þá ótaldir BS nemar; nemendur hjá Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna og þær þúsundir sem sækja nám á vegum endurmenntunar skólans.
“Á þessu vori bregður svo við að það stefnir í algjört met í umsóknum um skólavist hjá Landbúnaðarháskóla Íslands – sönnun þess að viðfangsefni skólans skipta miklu máli og hann hefur getið sér gott orð," sagði Ágúst.
Ágúst sagði að níunda skólaár Landbúnaðarháskóla Íslands hefði verið annasamt og viðburðaríkt. Síðasta sumar var undirritaður við hátíðlega athöfn í Skemmunni á Hvanneyri samningur um kennslu og rannsóknir milli ráðuneytis mennta- og menningarmála og LbhÍ. Þetta er að sjálfsögðu mikill áfangi enda hefur Landbúnaðarháskóli Íslands aldrei haft formlegan samning um starfsemina líkt og aðrir háskólar hafa haft. Samningurinn tekur m.a. á heildarfjölda nemenda og segir til um verkefni sem skólanum eru formlega falin og fjárframlög til þeirra.Nú fyrir nokkrum dögum var síðan undirritaður sérstakur rannsóknasamningur til næstu 4 ára milli LbhÍ og ráðuneytis atvinnuvega- og nýsköpunar. Þessi samningur er kjölfestan í rannsóknastarfi LbhÍ og afar mikilvægur.
Í lok síðasta árs skilaði LbhÍ ítarlegri sjálfsmatsskýrslu inn til Gæðaráðs íslenskra háskóla eins og áætlanir gerðu ráð fyrir. Starfsmenn og nemendur LbhÍ komu með virkum hætti að gerð skýrslunnar sem er mikilvægur liður í því ferli að auka gæði starfs okkar. Erlend sérfræðinganefnd gerði síðan viðamikla gæðaúttekt á starfi LbhÍ í byrjun mars sl. „Niðurstöður sérfræðinganefndarinnar liggja fyrir og í stuttu máli sagt getum við starfsmenn og nemendur LbhÍ verið ákaflega stolt af skólanum okkar. Úttektarnefndin gefur skólanum góða einkunn og lýsir yfir trausti á skólastarfinu. Í niðurstöðum nefndarinnar koma einnig fram mjög gagnlegar ábendingar um þætti til úrbóta sem ætti að vera mögulegt að bregðast við þannig að gæði skólastarfsins geti aukist,“ sagði Ágúst Sigurðsson, rektor í ræðu í Reykholtskirkju.