Mynd af Evlalíu Kolbrúnu Ágústsdóttur og yfirlit yfir meistararitgerð hennar

Evlalía Kolbrún Ágústsdóttir

Meistaravörn í Umhverfisbreytingum á norðurslóðum - Evlalía Kolbrún Ágústsdóttir

Evlalía Kolbrún Ágústsdóttir ver mastersritgerð sína "Gróður á íslenskum torfbæjum og í nærliggjandi vistlendum" við deild Náttúru & Skóga við Landbúnaðarháskóla Íslands.

Leiðbeinendur Evlalíu eru Hlynur Óskarsson, prófessor við LbhÍ og Guðrún Óskarsdóttir, gróðurvistfræðingur hjá Náttúrustofu Austurlands.

Prófdómari er Rannveig Thoroddsen, plöntuvistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun.

Meistaravörnin fer fram mánudaginn 6. janúar 2025 kl. 13 á Keldnaholti, Árleyni 22, Reykjavík en einnig er hægt að fylgjast með á Teams. Vörnin fer fram á ensku og er öllum opin.

 

Ágrip

Torfbæir eru tákn íslenskrar arfleifðar, byggðir að hluta úr torfi sem var meðal annars fengið úr efri lögum íslenskra mýra þar sem grös og starir voru ríkjandi. Torfbæir voru áður taldir merki fátæktar og í byrjun 20. aldar voru margir þeirra eyðilagðir. Þetta verkefni er hluti af verkefninu The Icelandic Turf House: A more-than-human story sem miðar að því að skoða torfbæinn ekki aðeins sem mannvirki heldur einnig sem vistkerfi.

Í verkefninu er lögð áhersla á að skilgreina torfbæinn sem eitthvað meira en bara sögulegt mannvirki með því að bæta vistfræðilegri vídd við lýsingu þess. Markmið verkefnisins er að leggja til að torfbærinn sé sérstök vistgerð, byggð á vistgerðarflokkun Náttúrufræðistofnunar Íslands.
 
Til þess að geta gert það er nauðsynlegt að rannsaka nokkra þætti torfbæjarins, svo sem gróður, sem var forsenda þessarar ritgerðar. Hér voru aðal markmiðin að meta mun á gróðurþekju milli torfbæja og nærliggjandi vistlenda og að bera saman gróður torfbæja á mismunandi svæðum.
Fimm torfbæir voru teknir fyrir. Tveir 15 m2 reitir voru rannsakaðir á hverjum torfbæ og í nærliggjandi vistlendum og innan hvers reits voru fjórir 50 cm x 50 cm rammar settir út af handahófi til gróðurgreiningar.
 
Við úrvinnslu gagna voru reitir bornir sjónrænt saman með ólínulegri fjölbreytugreiningu auk þess sem gróður mismunandi vistlenda var borinn saman með tölfræðilíkönum. Niðurstöður leiddu í ljós verulegan mun á tegundasamsetningu torfbæja og votlendis annars vegar og kjarrlendis hins vegar, en henni svipaði hins vegar talsvert til graslendis. Munurinn var hvað mestur við samanburð torfbæja og votlendis, þrátt fyrir að torfið væri upprunnið úr votlendi. Nokkur breytileiki milli torfbæjanna bendir til þess að gróður þeirra verði fyrir áhrifum utanaðkomandi þátta svo sem mannlegra, veðurfræðilegra og vistfræðilegra þátta.
 
Lykilorð: Gróður, gróðurþekja, torfbær, umhverfisþættir, veðurfarsáhrif, vistgerð, vistlendi.
logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image