Miðvikudaginn 3. júní nk. ver Sjöfn Ýr Hjartardóttir meistararitgerð sína, Þróun skipulags á Heimaey – Forvarnir og eldfjallavá, við umhverfisdeild LbhÍ. Leiðbeinendur eru Sigríður Kristjánsdóttir og Páll Zóphóníasson. Prófdómari er Bjarki Jóhannesson. Athöfnin fer fram í Sauðafelli á Keldnaholti (3. hæð) og hefst kl 15.00. Allir velkomnir.
Í úrdrætti ritgerðar segir:
Skipulag og náttúruvá er spennandi viðfangsefni fyrir þær sakir að ákvarðanir í skipulagsmálum á svæðum nálægt náttúruvá varða öryggi fólks. Í verkefninu er fjallað um þróun skipulags á Heimaey í Vestmannaeyjum. Byggð hefur verið á Heimaey síðan seint á landnámsöld en eftir eldgosið sem varð árið 1973 átti sér stað hröð uppbygging og sterk krafa varð um nýtt skipulag. Áhugavert er að skoða hvaða áhrif gosið hafði á skipulag og byggðarþróun á Heimaey og hvernig sveitarfélagið tekst á við hin eilífu átök mannsins við náttúruöflin. Athugað er hvort tillit sé tekið til eldfjallsins í skipulaginu og samspil byggðar og eldfjalls kannað. Þá er einnig skoðað hverskonar áhrif hröð uppbygging eftir gos hafði á byggðarmynstrið. Eitt af markmiðum verkefnisins er að komast að því hvernig gosið hafði áhrif á byggðarmynstur á eyjunni. Kenningar í borgarformfræði eru skoðaðar og heimfærðar á Heimaey. Loks er fjallað um hvernig styrkja má byggðina í Eyjum hvað varðar eldfjallið, með tilliti til forvarna. Það er áhugavert að skoða hvernig hættumati í tengslum við skipulag og náttúruhamfarir er háttað hjá sveitarfélaginu sem og hvernig stefna Almannavarna er fyrir Vestmannaeyjar. Með sérstöðu Vestmannaeyja í huga sem og forvarnir gegn náttúruvá í nálægð við byggð er í kjölfarið athyglisvert að skoða hvernig æskilegt er að framtíðarbyggðarþróun verði.