Meistaravörn Sigríðar Jónsdóttur í náttúru- og umhverfisfræði

Sigríður Jónsdóttir ver meistararitgerð sína í náttúru- og umhverfisfræði Beittar uppgræðslur á hálendi Íslands. Reynsla bænda, aðferðir og árangur við deild Náttúru og skógar hjá Landbúnaðarháskóla Íslands.

Á ensku nefnist ritgerðin Grazed revegetation sites in Icelandic highlands. Farmers´ experience, methods, and success.

Leiðbeinendur Sigríðar voru dr. Anna Guðrún Þórhallsdóttir, prófessor við Háskólann á Hólum og dr. Guðni Þorgrímur Þorvaldsson, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands. Prófdómari er dr. Ólafur Dýrmundsson, fyrrverandi landsráðunautur.

Meistaravörnin fer fram fimmtudaginn 4. nóvember 2021 kl. 13:00 við Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri, í fundarsalnum Borg á 2. hæð í Ásgarði.

Vörninni verður einnig streymt í gegnum Zoom fjarfundabúnað og öllum áhugasömum er velkomið að fylgjast með henni þannig. Við biðjum þá sem vilja tengja sig vinsamlegast að gera það fyrir kl. 13:50. Jafnframt biðjum við alla sem tengjast í gegnum fjarfundabúnað að slökkva á eigin hljóðnemum á meðan fyrirlesturinn fer fram, en mega gjarnan kveikja á þeim þegar gefið verður færi á spurningum „úr sal“ í lok varnarinnar. Hlekkur á vörnina hér. Vörnin fer fram á íslensku.

Ágrip

Undanfarna áratugi hefur uppgræðsla verið stunduð um allt land við mismunandi aðstæður. Bændur vinna að því uppgræðslustarfi að stórum hluta, bæði á heimalöndum og í afréttum, í samvinnu við Landgræðsluna.

Markmið þessa verkefnis var að afla þekkingar frá bændum um beittar uppgræðslur á hálendi Íslands, kynnast sjónarmiðum þeirra, aðferðum og árangri. Gerð var tilviksrannsókn sem byggði á eftirfarandi gagnaöflun: Viðtöl voru tekin við valinn hóp einstaklinga sem þekktu vel til á hverju svæði og ásamt þeim farið í vettvangsskoðun um uppgræðslurnar. Farið var um afrétti í Suður-Þingeyjarsýslu, Árnessýslu, Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu, alls tólf svæði. Reitir voru gróðurgreindir, teknar myndir og saga staðar skráð. Frekari gagna var aflað þegar þurfa þótti, þar til nóg efni lá fyrir til að setja fram niðurstöður.

Markmið bænda með uppgræðslustarfi eru að uppfylla skilyrði gæðastýringar í sauðfjárrækt, að ná árangri við uppgræðslu lands, að græða land undir beit og beitarstjórnun. Aðgengi, kostnaður og væntanlegur árangur ráða mestu um hvaða svæði eru tekin til uppgræðslu. Dreifing áburðar er helsta úrræðið við uppgræðslurnar. Sums staðar þarf að nota fræ en til að það komi að gagni þarf að fella það niður. Heyi er sums staðar dreift í börð og við aðrar mjög erfiðar aðstæður. Árangurinn sem bændur stefna að með uppgræðslu er full gróðurþekja sem getur lifað hjálparlaust. Við uppgræðslu barða og rofjaðra er stefnt að því að sár lokist og grói upp, rof hætti og gróður þeki moldir og börð.

Bændur vinna að uppgræðslum á hverjum stað þar til viðunandi árangri er náð. Erfitt að meta að ákveðnar aðgerðir leiði til ákveðins árangurs en samspil uppgræðsluaðgerðanna, landsins og umhverfisins ræður hvernig uppgræðslurnar taka við sér. Landið og umhverfið ráða hins vegar mestu um hvaða gróður lifir til langframa og hvernig gróðurfar þróast eftir að uppgræðslustarfinu telst lokið.

Yfirleitt ná uppgræðslurnar þokkalegri gróðurþekju á fáeinum árum, sem síðan þróast yfir í náttúrulegar vistgerðir með tímanum og falla vel að umhverfi. Alla jafna hefur verið mjög gróðurlítið fyrir á þessum stöðum þannig að uppgræðslurnar hljóta að teljast árangursríkar. Árangur af uppgræðslustarfi bænda á hálendinu er góður og ekki lakari en á friðuðum uppgræðslum, enda telja bændur að beit og uppgræðslur fari vel saman.

Undanfarna áratugi hefur gróður á afréttum verið í framför með þeirri sauðfjárbeit sem þar hefur verið. Bóndinn nýtir afrétt sinn til beitar og kynnist náttúru landsins á þann hátt. Þekking heimamannsins kemur til vegna nýtingarinnar. Sú þekking er bóndanum nauðsynleg og leggur grunninn að búmennsku sem kemur báðum til góða, bóndanum og náttúrunni sem hann býr í.

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image