Jóhanna Bergrúnar Ólafsdóttir ver meistararitgerð sína í skógfræði við Náttúru- og skógardeild Landbúnaðarháskóla Íslands. Meistararitgerðin heitir „Notkun aspargræðlinga í nýskógrækt, samanburður á aðferðum, efnivið og landgerðum“.
Leiðbeinendur Jóhönnu voru Úlfur Óskarsson lektor hjá Landbúnaðarháskóla Íslands og dr. Hreinn Óskarsson sviðsstjóri þjóðaskóga hjá Skógræktinni. Prófdómari er dr. Brynhildur Bjarnadóttir skógvistfræðingur og dósent á hug- og félagsvísindasviði Háskólans á Akureyri.
Vörnin fer fram þann 15.maí kl. 13:00. Í ljósi aðstæðna fer vörnin fram á internetinu, í gegnum Zoom fjarfundabúnað. Allir áhugasamir eru velkomnir að tengja sinn inn á vörnina og er hlekkurinn á zoomið hér. Við biðjum þá sem vilja tengja sig að gera það í síðasta lagi k. 12:50. Jafnframt eru þeir beðnir að slökkva á eigin hljóðnemum á meðan fyrirlesturinn fer fram, en mega gjarnan kveikja á þeim þegar gefið verður færi á spurningum í lok varnarinnar.
Ágrip ritgerðarinnar
Á Íslandi er að finna stór svæði af illa grónu landi. Lúpínu hefur verið sáð í mörg þessara svæða til að stöðva jarðvegsrof og í dag gætu þau hentað vel til nýskógræktar til kolefnisbindingar og framleiðslu iðnviðar. Með notkunarmöguleika þessara svæða í huga voru lagðar út tilraunir með notkun órættra græðlinga af alaskaösp sem verða hér til umfjöllunar. Rannsóknirnar snérust um val á aðferðum og plöntuefni við nýræktun asparskóga. Notast var að mestu leiti við órætta græðlinga í tilraunirnar en einnig fjölpottaplöntur. Tilraunirnar voru í fjórum ólíkum landgerðum: graslendi, mólendi, áreyrum og lúpínubreiðum. Tilraunirnar snérust um: 1) samanburð jarðvinnsluaðferða í lúpínubreiðum, 2) tímasetningu áburðargjafar, 3) samanburð græðlingalengda og 4) niturbúskap misstórra græðlinga og skógarplantna á fyrsta sumri. Asparklónarnir Forkur og Haukur voru notaðir til jafns í tilraunum 1-3, en aðeins Haukur var notaður í fjórða tilraunalið. Þessum tilraunum var ætlað að svara eftirfarandi spurningum: a) Hafa mismunandi jarðvinnsluaðferðir í lúpínubreiðum áhrif á samkeppnisstöðu aspargræðlinga? b) Hefur áburðargjöf á mismunandi tímum eftir gróðursetningu áhrif á lifun og vöxt aspargræðlinga? c) Hefur lengd aspargræðlinga áhrif á lifun og vöxt? d) Hefur stærð og niturforði skógarplantna og græðlinga af alaskaösp áhrif á sprotavöxt á fyrsta ári?
Helstu niðurstöður tilraunanna eftir þrjú sumur voru: a) Græðlingar sem settir voru niður í heiltætt lúpínusvæði lifðu og uxu marktækt betur en græðlingar sem settir voru í aðrar jarðvinnslumeðferðir eða óhreyft land. b) Græðlingar sem stungið var í áreyrar og fengu áburð í júní ári eftir stungu, uxu marktækt betur en þeir sem fengu áburð fyrr eða engan áburð. Forkur óx marktækt betur en Haukur, bæði í mólendi og á áreyrum. c) Á áreyrum og lúpínusvæði lifðu 80 cm græðlingar marktækt betur en aðrar græðlingalengdir, en í mólendi var lifun best hjá 20 cm græðlingum. Í mólendi lifði klónninn Forkur marktækt betur en Haukur. Í öllum þremur landgerðum uxu 100 cm langir drumbar betur en aðrar græðlingalengdir. d) Jákvætt samband var milli niturinnihalds plöntuefnis og lengdar vaxtarsprota á fyrsta sumri. Þessar niðurstöður geta verið leiðbeinandi við val á hentugum græðlingagerðum og aðferðum við nýræktun asparskóga í mismunandi landgerðum.