Lorenzo Veglio ver meistararitgerð sína í Náttúru - og umhverfisfræði „Tilvist og magn barnamosa í íslenskum mýrum: Rannsókn á svæðum með breytilegri ákomu fokefna” við deild Náttúru og skóga við Landbúnaðarháskóla Íslands.
Leiðbeinendur Lorenzos eru Dr. Hlynur Óskarsson, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands og forstöðumaður framhaldsnáms við sama skóla og Dr. Starri Hreiðmarsson, forstöðumaður Náttúrustofu Norðurlands Vestra.
Prófdómari er Dr. Borgþór Magnússon, vistfræðingur.
Meistaravörnin fer fram þriðjudaginn 28. maí 2024 kl. 09:00 í Sauðafelli, 3. hæð, Keldnaholti, Reykjavík og á Teams og er opin öllum.
Ágrip
Sýnt hefur verið fram á að áfok hefur áhrif á náttúruleg vistkerfi á mismunandi vegu, til dæmis með því að auka þéttni jarðvegs og steinefnainnihald, sem getur leitt af sér breytingar á gróðri. Tíð eldgos, víðáttumikillar auðnir og rofsvæði, ásamt vindasömum aðstæðum, leiða af sér að íslensk náttúra býr við verulega ákomu steinefna á formi ryks og ösku. Vegna raka í yfirborði mýra safnast áfoksefni fyrir í þeim sem leiðir til þess að íslenskar mýrar eru almennt steinefnaríkar og æðaplöntur ráðandi í gróðurþekjunni frekar en barnamosar (Sphagnum spp.). Í þessari rannsókn var tilvist barnamosategunda könnuð í mýrum á sniði með breytilegri ákomu fokefna, en magnið er breytilegt eftir fjarlægð frá upptökum áfoksins (mest næst og minnst fjærst; Arnalds, 2010). Gegnið var útfrá þeirri tilgátu að með aukinni steinefnaákomu aukist þekja háplantna í mýrum á kostnað barnamosa. Valin voru ellefu mýrasvæði á sniði frá Mývatnsheiði yfir á Lágheiði á Tröllaskaga, en samkvæmt áður birtum gögnum er vindborin ákoma steinefna verulega breytileg meðfram þessu sniði (Arnalds, 2010). Á hverju svæði var annars vegar heildarþekja barnamosa áætluð og hins vegar voru ýmsir efnaeiginleikar (pH, EC, C/N hlutfall), eðliseiginleikar (hæð y.s., BD, LOI) og líffræðilegir þættir (þekja og fjölbreytni háplanta) kannaðir. Enn fremur voru þeir barnamosar sem fundust á hverju svæði greindir til tegunda (þekja ekki metin). Andstætt því sem búist var við reyndist ekki marktæka fylgni milli þekju barnamosa og stakra jarðvegs- og gróðurþátta; þess í stað sýndu niðurstöður fram á flókið ólínulegt samband milli þekju barnamosa og all nokkurra þeirra þátta sem mældir voru í verkefninu. Jafnvel í mýrum nærri virkum rof- og eldfjallasvæðum sýndu niðurstöðurnar verulega þekju barnamosa. Fjölþátta greining á gögnunum, sem tók til margra af umhverfisbreytunum, bendir til samþættra áhrifa umhverfisþátta á tegundasamsetningu og magn barnamosa, sem undirstrikar flókið vistfræðilegt samspil innan mýrarvistkerfa. Greining á gróðurgögnunum sýndi hóflega jákvæða fylgni milli þekju barnamosa og tegundafjölbreytileika æðplantna, sem gefur til kynna að aukinn fjölbreytileika plantna (færri ríkjandi tegundir) leiði af sér hagstæðari skilyrði fyrir vöxt barnamosa.
Niðurstöður þessarar rannsóknar undirstrika aðlögunarhæfni barnamosategunda að fjölbreyttum vistfræðilegum aðstæðum og þau flóknu vistfræðileg tengsl sem hafa áhrif á dreifingu og magn barnamosa í mýrum. Einnig undirstrikar rannsóknin nauðsyn þess að beita heildrænni nálgun við rannsóknir á vistkerfum mýra.