Krýsuvík - á móti sólu. Uppbygging ferðamannastaða. Meistaravörn Helgu Stefánsdóttur

Meistaravörn: Helga Stefánsdóttir

Miðvikudaginn 21. nóvember ver Helga Stefánsdóttir meistararitgerð sína í Skipulagsfræðum við Auðlinda- og umhverfisdeild Landbúnaðarháskóla Íslands. Ritgerðin nefnist Krýsuvík - á móti sólu. Uppbygging ferðamannastaða. Ábyrgðarmaður LbhÍ Dr. Sigríður Kristjánsdóttir Leiðbeinendur: Dr. Bjarni Reynarsson og Yngvi Þór Loftsson Prófdómari Dr. Trausti Valsson.

Athöfnin fer fram í húsnæði Landbúnaðarháskóla Íslands í Reykjavík, Árleyni 22, Keldnaholti, fyrirlestrasal á 3. hæð og hefst kl 14.00. Allir velkomnir!

Ágrip Á síðustu árum hafa orðið gífurlegar breytingar á fjölda ferðamanna á Íslandi en ferðamenn hafa farið úr 70 þúsund í 2,2 milljónir 2017 á aðeins 30 árum. Spár gera enn ráð fyrir aukningu ferðamanna næstu ár en ekki eins mikilli og verið hefur. Krýsuvík hefur ekki farið varhluta af auknum ferðamannastraumi en umferð bíla við Seltún í Krýsuvík hefur tvöfaldast á 5 árum. Mikilvægt er fyrir sveitarfélagið Hafnarfjörð að gera sér betur grein fyrir þeim tækifærum sem liggja í Krýsuvík með það að sjónarmiði að fara í uppbyggingu á völdum stöðum og hlúa að svæðinu. Marka þarf stefnu uppbyggingar, hvaða svæði á að byggja upp þannig að þau taki við fjölgun ferðamanna og hvaða svæði á að leggja minni áherslu á og jafnvel vernda. Skoðun og greining leiddi í ljós að aðal ferðamannastraumurinn í Krýsuvík liggur að háhitasvæðinu í Seltúni. Frekari greining á svæðinu öllu var unnin út frá fyrirliggjandi talningum, spurningakönnunum og viðtölum við hagsmunaaðila. Jafnframt var svæðið skoðað með svo kallaðri SVÓT aðferð, þar sem svæðið var skoðað með tilliti til styrkleika, veikleika, tækifæra og ógnana. Niðurstöður greiningarinnar eru að óspillt náttúra, jarðfræðin, fámennið, menningarminjar og háhitasvæðin er það sem ferðamenn sækjast eftir í Krýsuvík og fjölbreytileiki svæðisins þykir einstakur. Með hliðsjón af niðurstöðunum er lagt til að ráðist verði í frekari uppbyggingu við Seltún, Grænavatn, Kleifarvatn, Krýsuvíkurberg og Krýsuvíkurhverfið vegna náttúrunnar og aðgengis. Settar eru fram tillögur að skiplagi við Krýsuvíkurberg og Grænavatn en endanlegt deiliskipulag þarf að vinna í samvinnu við hagsmunaaðila.

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image