Meistaravörn: Guðrún Dóra Brynjólfsdóttir

Þriðjudaginn 31. maí  nk. ver Guðrún Dóra Brynjólfsdóttir meistararitgerð sína, Skipulag, staða og stefnumótun ferðaþjónustu í aðalskipulagi sveitarfélaga á Íslandi, við umhverfisdeild LbhÍ. Leiðbeinendur eru  Ólöf Ýrr Atladóttir, Sverrir Örvar Sverrisson og Dr. Sigríður Kristjánsdóttir. Prófdómari er Óskar Örn Gunnarsson. Athöfnin fer fram á Keldnaholti í Reykjavík og hefst kl 15.00. Allir velkomnir.

 

 Háskóli Íslands
Ferðamenn og íbúar á Íslandi

Um verkefni Guðrúnar Dóru:

Ferðaþjónustan hefur vaxið sem atvinnugrein á undanförnum árum. Talsverðar breytingar hafa orðið á umgjörð ferðaþjónustunnar og á rekstrarforsendum hennar. Landnotkun hefur breyst með tilkomu ferðaþjónustunnar og áhrif á íbúa og sveitarfélög eru að verða meiri, bæði jákvæð og neikvæð. Ferðaþjónusta getur skapað atvinnu, tekjur og stuðlað að byggðafestu, en á sama tíma nýtir atvinnugreinin sér ákveðna samfélagslega þætti og eins nýtir hún sér ákveðin almannagæði í starfsemi sinni.

Áhrif ferðaþjónustunnar á innviði og grunngerð sveitarfélaga hafa lítið sem ekkert verið könnuð þrátt fyrir að fjölmörg sveitarfélög byggi í vaxandi mæli á ferðaþjónustu í atvinnustefnu sinni, að einhverju eða öllu leyti. Í ljósi þess er mikilvægt að sveitarfélög geri stefnumótandi áætlun um það hvernig þau ætli sér að takast á við fjölda ferðamanna, umfang, uppbyggingu og þau áhrif sem af ferðaþjónustunni hljótast. Mikilvægt er að móta framtíðarsýn um þá þætti í starfsemi sveitarfélaga sem snúa að ferðaþjónustunni s.s. skipulagsmál, innviði og grunngerð. Tryggja verður sjónarmið sjálfbærrar ferðaþjónustu, bæði hvað varðar varðveislu náttúruauðlinda og til að atvinnugreinin geti starfað í sátt við íbúa og ferðamenn.

Áhugavert er því að skoða hvernig sveitarfélögin huga að ferðaþjónustunni þar sem sum þeirra eiga verulegra hagsmuna að gæta. Markmið þessarar rannsóknar er að kanna hvernig ferðaþjónusta er skilgreind í aðalskipulagsáætlunum sveitarfélaga. Aðalskipulag er lögformleg skipulagsáætlun sveitarfélaga þar sem skilgreind er þróun landnotkunar og byggðar í sveitarfélaginu til a.m.k. 12 ára tímabils. Helstu niðurstöður eru þær að í mörgum aðalskipulagsáætlunum skortir á að skýrar og stefnumótandi áherslur séu settar fram þegar kemur að ferðaþjónustu eða uppbyggingu hennar í sveitarfélaginu.

 

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image