Mánudaginn 30. maí nk. ver Brynjar Þór Jónasson meistararitgerð sína, Verðmæti Laugardalsins: Hefur skipulag áhrif á fasteignaverð, við umhverfisdeild LbhÍ. Leiðbeinendur eru Dr. Lúðvík Elíasson og Dr. Sigríður Kristjánsdóttir. Prófdómari er Dr. Sigurður Jóhannesson. Athöfnin fer fram á Keldnaholti í Reykjavík og hefst kl 13.00. Allir velkomnir.
Um verkefni Brynjars:
Verðmæti útivistarsvæða hefur ekki verið mikið rannsakað hér á landi. Í þessari rannsókn er verðmæti útivistarsvæðisins í Laugardal Reykjavík skoðað út frá fasteignaverði með óbeinu verðmati (e. Hedonic price technique). Metið er hvort útivistarsvæðið sé áhrifaþáttur í fasteignaverði eða sóun á góðu byggingalandi. Á undanförnum árum hefur eftirspurn eftir byggingarlóðum verið talsvert meiri en framboð. Það er því mikilvægt fyrir skipulagsfræðinga að átta sig á verðmætum útivistarsvæða við skipulagsgerð, einnig að hægt sé að benda á hagræn rök fyrir tilurð vandaðra útivistarsvæða.
Ekki er mikið af gögnum hér á landi, sem skipulagsfræðingar geta stuðst við í skipulagsgerð, sem staðfesta hagræn áhrif útivistarsvæða. Gögn er snúa að fasteignamarkaði eru hinsvegar aðgengileg, safnað saman af opinberum aðila, Þjóðskrá Íslands, og samantektir birtar á vefsíðu stofnunarinnar.
Í þessari rannsókn er skoðað hvort fasteignir í fjölbýli í nánd við útivistarsvæðið í Laugardalnum eru hærra verðlagðar en þær sem fjær standa. Mat er lagt á hvort merkjanlegur munur er á verði fasteignanna eftir því hversu nálægt þær eru útivistarsvæðinu í Laugardalnum, mælt í metrum. Eignunum er skipt upp í tvo flokka, annarsvegar eignir innan 200 metra frá jaðri og hinsvegar eignir utan 200 metra frá jaðri. Einnig er mat lagt á hvort útsýni, þ.e. hvort hægt er að horfa úr einhverju stað fasteignarinnar yfir Laugardalinn, hefur áhrif á verð. Með niðurstöðum rannsóknarinnar, verður hægt með þessum hætti að leggja mat á peningalegt verðmæti Laugardalsins í Reykjavík.