Andri Þór ver meistararitgerð sína Ofanvatnsskipulag – Blágrænar ofanvatnslausnir í skipulagi. MYND/aðsend

Meistaravörn Andra Þórs Andréssonar í skipulagsfræði

Andri Þór Andrésson ver meistararitgerð sína í skipulagsfræði við deild Skipulags og hönnunar í Landbúnaðarháskóla Íslands sem nefnist „Ofanvatnsskipulag – Blágrænar ofanvatnslausnir í skipulagi“ á íslensku en á ensku er titillinn „Stormwater Planning – SUDS in Developement Planning”.

Leiðbeinendur eru dr. Sigríður Kristjánsdóttir skipulagsfræðingur og Sigurður Grétar Sigmarsson vatnsauðlindaverkfræðingur hjá Verkís. Dr. Sigríður er jafnframt ábyrgðarmaður háskólans með verkefninu. Prófdómari er dr. Hrund Ólöf Andradóttir prófessor í umhverfis- og byggingaverkfræði við Háskóla Íslands.

Vörnin fer fram föstudaginn 18. desember 2020 kl. 14:00 og verður streymt í gegnum Zoom fjarfundabúnað og öllum áhugasömum er velkomið að fylgjast með henni þannig.

Hlekkur á fjarvörnina hér.

Við biðjum þá sem vilja tengja sig vinsamlegast að gera það fyrir kl. 13:50. Jafnframt biðjum við alla sem tengjast í gegnum fjarfundabúnað að slökkva á eigin hljóðnemum á meðan fyrirlesturinn fer fram, en mega gjarnan kveikja á þeim þegar gefið verður færi á spurningum „úr sal“ í lok varnarinnar. Vörnin fer fram á íslensku.

Ágrip

Vísindamenn spá nú fyrir um breytingar á veðurfari í heiminum í tengslum við hlýnun jarðar og spá þeir fyrir um aukna tíðni mikilla vatnsveðra auk ákafari regnskúra. Á mörgum þéttbýlissvæðum munu þær lausnir í veitumálum sem nú er notast við ekki ráða við þessa auknu tíðni vatnsveðra og aukið magn ofanvatns. Þetta á einnig við á ákveðnum stöðum á Íslandi bæði innan höfuðborgarsvæðisins og utan þess.

Alþjóðlegar stefnur á sveitarfélagsstigi, t.d. Staðardagskrá 21, einnig þekkt sem Álaborgarsamþykktin, kalla eftir vistvænni uppbyggingu innviða í borgum og bæjum þ.m.t á veitukerfum. Mörg sveitarfélög á Íslandi svara þessu kalli í gegnum markmiðasetningu í skipulagsáætlunum sínum sem byggð eru á markmiðum ríkisins um vistvæna uppbyggingu sem mótuð eru eftir alþjóðlegum stefnum eins og heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Rannsakað er hvort hægt sé að nota skipulagskerfið á Íslandi til að auðvelda og einfalda innleiðingu svokallaðra blágrænna ofanvatnslausna á Íslandi auk þess að leitað er leiða til að samþætta það ferli betur við skipulagsferla með skipulagsáætlanir í huga. Rýnt er í skipulagsferla og skoðað verður hvernig hægt sé að nota skipulagskerfið til að vinna vistvænna skipulag í sveitarfélögum með blágrænar ofanvatnslausnir í huga þannig að hægt sé að stefna að þéttingu byggðar án þess að ganga um of á þau grænu svæði sem þegar eru til staðar innan þéttbýlisins.

Með því að vinna sérstakt ofanvatnsskipulag fyrir meðhöndlun ofanvatns með blágrænar ofanvatnslausnir í forgrunni, í formi svokallaðs sértæks skipulags yrði auðveldara að vinna út frá afrennslissvæði/vatnasviði viðkomandi svæðis. Þá gengur slíkt skipulag þvert á hverfa- og sveitarfélagsmörk auk þess að slíkt skipulag býður uppá það að skilmálar þess séu rétthærri gildandi skilmálum á deiliskipulagsstigi sem fyrir eru á svæðinu. Nýtt skipulagstæki, sértækt skipulag, þar sem meðhöndlun ofanvatns væri gefin sérstök athygli í sértæku ofanvatnsskipulagi gæti verið stórt skref í átt að í innleiðingu slíkra lausna í hið byggða umhverfi á Íslandi vegna aðlögunar að lofslagsbreytingum.

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image