Ragnheiður I. Þórarinsdóttir rektor, til hægri ásamt Árna Ólafi Jónssyni og Bryndísi Geirsdóttur hjá Búdrýgindum, framleiðendur hins blómlega bús.

Matarhátíð og keppni um Askinn 2019

Fjölbreytt framleiðsla boðin til sölu á matarmarkaðnum.
Alls voru 133 vörur sendar inní keppnina og skiptust í 10 flokka.
Verðlaunahafa stilla sér upp fyrir myndatöku eftir afhendingu.
Margrét Björk Björnsdóttir setur verðlaunafhendingu en að hátíðinni komu Markaðstofa Vesturlands, Matarauður Íslands, Matís og hýsti skólinn hátíðina.

Um liðna helgi voru tilkynnt úrslit í Askinum 2019 og um leið haldin matarhátíð á Hvanneyri auk sýningar á keppnisvörum þá var matarmarkaður, örfyrirlestrar og veitingasala. Hátíðin var vel sótt og sýnir það að mikill áhugi er fyrir matarhandverki og möguleikanum á að versla beint frá framleiðanda. Gamla torfan á Hvanneyri iðaði af lífi en einnig var opið í Landbúnaðarsafni Íslands og Ullarselinu. Matarmarkaðurinn var í rými Jarðræktarmiðstöðvar LbhÍ og keppnin í hlöðu Halldórsfjóss sem einnig hýsir Gestastofu friðlands fugla í Andakíl. Landbúnaðarháskóli Íslands gegnir mikilvægu hlutverki þegar kemur að námi tengdu matvælaframleiðslu og býður nám á ýmsum stigum í landbúnaði, bæði í garðyrkju og búfjárhaldi. Skólinn er því afar stoltur að taka þátt í viðburði sem þessum og stuðla þannig að auknum sýnileika og umfjöllun á svið matvælaframleiðslu og handverki.

Askurinn er íslandsmeistarakeppni í matarhandverki sem snýst um að skapa vörur þar sem áhersla er lögð á einstakt bragð, gæði og ekki síst ímynd, sem iðnaður getur ekki búið til sem og að hægt sé að rekja uppruna vörunnar. Notuð eru staðbundin hráefni og framleiðsla í litlu magni sem er oft svæðisbundin. Innsendar vörur í keppnina voru 133 talsins í 10 keppnisflokkum og veitt voru gull, silfur og brons í hverjum þeirra. 

„Matarhandverksvörur eru heilnæmar, án óþarfra aukaefna og vörur sem hægt er að rekja til upprunans. Aðalsmerki matarhandverks er að nota það hráefni, mannafla og verkkunnáttu sem fyrirfinnst á staðnum, í gegnum alla framleiðslukeðjuna. Í matarhandverki er lögð áhersla á að þróa hefðbundnar vörur fyrir neytendur dagsins í dag. Matarhandverksvörur eru frábrugðnar öðrum matvörum á þann hátt að nánast engin aukefni (E efni) eru leyfð í þeim, vélvæðing er takmörkuð og íslensk hráefni notuð eins og kostur er“ segir Þóra Valsdóttir sérfræðingur hjá Matís.

Basilikusmjör, Rauðvínssalami, Bopp, Nautasnakk, Aðabláberjate, Kimchi og Glóaldin Kombucha eru meðal vara sem hlutu verðlaun og er virkilega gaman að sjá hversu fjölbreytt úrvalið er í matarhandverki í dag. Sjá má lista með verðlaunahöfum á síðu Matís hér

Stuttir fræðslufyrirlestrar voru haldnir samhliða hátíðinni og kynnti Hlédís Sveinsdóttir REKO og hugmyndafræðina þar að baki. Eva Margrét Jónudóttir fjallaði um gæði og tækifæri hrossakjöts. Matís kynnti verkefnið sitt Krakkar kokka. Katharina og Gerald Schinwald sauðaostaframleiðendur frá  Austurríki sögðu frá búi sínu og framleiðslu undir nafninu Milchmäderl. Vífill Karlsson kynnti að lokum svo landfræðilegt og efnahagslegt litróf garðyrkju á Íslandi. Á staðarkránni var veitingasala hjá Kvenfélaginu 19. júní sem meðal annars bauð lambavefjur með lambakjöti frá sauðfjárbúi skólans á Hesti og Árni Ólafur Jónsson frá Hinu blómlega búi var með eggjapúns gerðan á staðnum og bauð tll sölu við góðar undirtektir. 

Viðburðurinn var haldin í samstarfi Markaðsstofu Vesturlands, Matarauðs Íslands, Matís og Landbúnaðarháskóla Íslands sem hýsti keppnina og þakkar skólinn öllum sem komu að hátíðinni og aðstoðuðu í undirbúningi hennar og framkvæmd. 

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image