Þann 27. september útskrifuðust 17 sérfræðingar úr árlegu sex mánaða námi Landgræðsluskóla GRÓ. Í hópnum í ár voru sérfræðingar frá Mongólíu, Kirgistan og Tadsjikistan í Mið-Asíu og frá Eþíópíu, Gana, Malaví, Lesótó og Úganda í Afríku sunnan Sahara. Sérfræðingarnir fara nú aftur til starfa í sínum heimalöndum og miðla þar af reynslu sinni og þekkingu.
Þetta er í fyrsta sinn sem Landgræðsluskólinn útskrifar nemendur úr sex mánaða náminu undir merkjum GRÓ, en skólinn varð hluti af GRÓ Þekkingarmiðstöð um þróunarsamvinnu í byrjun árs 2020. GRÓ starfar undir merkjum Mennta-, vísinda- og menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, og er fyrsta þverfaglega miðstöðin sem það gerir. Vegna heimsfaraldurins reyndist ekki unnt að taka á móti sérfræðingum frá samstarfslöndum Landgræðsluskólans í nám árið 2020. Það var því sérstaklega ánægjulegt að námið í ár gekk afar vel, þrátt fyrir flækjustig vegna ferðalaga á milli landa og heimsálfa, sóttkvíar við komu til landsins og mörg Covid-próf.
Við útskriftarathöfnina ávarpaði ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, Martin Eyjólfsson, gesti útskriftarinnar. Auk hans tóku til máls Sjöfn Vilhelmsdóttir forstöðumaður Landgræðsluskólans og tveir nemar fyrir hönd útskriftarhópsins, þau Paulean Kadammanja frá Malaví og Ganzorig Ugliichimeg frá Mongólíu. Forstöðumaður GRÓ, Nína Björk Jónsdóttir, afhenti nemunum útskriftarskírteinin ásamt forstöðumanni Landgræðsluskólans og rektor Landbúnaðarháskóla Íslands, Ragnheiður I. Þórarinsdóttir, lokaði svo athöfninni.
Allur hópurinn saman kominn fyrir útskrift. Nemendurnir að lokinni útskrift. Ljósmynd Dúi J. Landmark
Meginmarkmið Landgræðsluskóla GRÓ er að aðstoða þróunarlönd að stuðla að sjálfbærri landnýtingu og vistheimt. Það er gert m.a. með því að bjóða hingað til lands sérfræðingum frá samstarfsstofnunum Landgræðsluskólans á sex mánaða námskeið í landgræðslu, sjálfbærri landnýtingu og endurheimt vistkerfa. Námið eflir þekkingu innan viðkomandi stofnana með þjálfun starfsfólksins sem hingað kemur.
Landgræðsluskólinn hefur starfað frá árinu 2007 og er fjármagnaður af íslenska ríkinu sem hluti af framlagi Íslands til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu. Alls hafa 156 sérfræðingar frá samstarfsstofnunum Landgræðsluskólans í Afríku og Asíu útskrifast úr skólanum. Stofnanirnar eru fjölbreyttar, s.s. ráðuneyti, umhverfisstofnanir, héraðsstjórnir, félagasamtök, og háskóla- og rannsóknastofnanir en eiga það sameiginlegt að vinna að málefnum tengdum sjálfbærri landnýtingu, endurheimt vistkerfa og landvernd.